Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Veiðarfæri mikill meirihluti rusls á hafsbotni

Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Hægt væri að takmarka veiðar á þeim svæðum sem mest rusl hefur fundist við kortlagningu Hafrannsóknastofnunar á búsvæðum á hafsbotni. Langstærstur hluti af rusli í hafinu við Ísland eru veiðarfæri.

 

Hafrannsóknastofnun hefur frá árinu 2004 unnið að kortlagningu búsvæða á hafsbotni víða í kringum landið. Verkefninu er ætlað að kortleggja mismunandi búsvæði, skrá tegundir og meta verndargildi þeirra. Stafrænar myndavélar á fjarstýrðum neðansjávar djúpkanna eru notaðar til verksins. Við úrvinnslu myndefnisins hefur rusl óhjákvæmilega fundist, segir á vef Hafrannsóknastofnunar.

Langalgengasta tegund rusls var fiskilína, eða yfir 80 prósent af öllu rusli sem fannst. Séu öll veiðarfæri talin voru þau um 94 prósent alls rusls á myndefni Hafrannsóknastofnunar. Veiðarfæri eru að mestu úr sterkum plastefnum, sem afar langan tíma tekur að brotni niður. Plastið brotnar samt niður smám saman og verður að örplasti. Örplastið fer svo í minnstu lífverurnar við sjávarbotninn, og þaðan áfram fæðukeðjuna að sögn Petrúnar Sigurðardóttur, líffræðings hjá Hafrannsóknastofnun.

Petrún segir að mest af rusli hafi fundist á hafsvæðinu í kringum Reykjanesskaga. Hafsbotninn þar er mjög grýttur og góðar líkur á að fiskilínur festist í grjótinu og kóralrifjum sem eru þar líka. Til þess að koma í veg fyrir að meira rusl verði skilið eftir á botninum þar í kring segir Petrún að mögulega væri hægt að takmarka veiðar þar, „því ég veit að línuveiðar eru ennþá stundaðar á þessu svæði.“

Erfitt er að sækja ruslið niður á hafsbotn að sögn Petrúnar. „Það væri kannski hægt á sumum svæðum með trollum. Ég var líka að sjá í morgun að það er verið að þróa einhverja aðferð til að fjarlægja rusl af hafsbotni með notkun róbóta,“ segir Petrún í samtali við Samfélagið á Rás 1.

Myndefnið sem notað var til rannsóknarinnar nær aðeins til brotabrots af hafsbotni innan efnahagslögsögu Íslands. Petrún segir að til standi að halda áfram að kortleggja hafsbotninn í kringum landið. Mikilvægt sé að reyna að finna viðkvæm búsvæði og vernda þau sem mest þurfa á því að halda. 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV