Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Karfan loksins í Höllina - Handboltinn ekki

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Karfan loksins í Höllina - Handboltinn ekki

13.09.2022 - 07:00
Neðsti hluti stúkunnar í Laugardalshöll er ónýtur. Karla- og kvennalandslið Íslands í handbolta munu spila leiki sína út 2022 á Ásvöllum. Karlalandsliðið í körfubolta mun hins vegar spila gríðarlega mikilvægan leik gegn Georgíu í Laugardalshöll. Sömu reglugerðir eiga ekki við um körfubolta og handbolta. Hægt verður að færa stúkur til og frá til að gera Höllina klára. Formenn KKÍ og HSÍ bíða óþreyjufullir eftir nýrri þjóðarhöll.

Fram undan í vetur eru mikilvægir leikir hjá karla- og kvennalandsliðum Íslands í handbolta. Íþróttadeild RÚV ræddi við forráðamenn sérsambandanna tveggja, þá Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóra HSÍ og Hannes S. Jónsson formann KKÍ.

Síðasti kappleikur landsliðanna í Laugardalshöll var leikur karlalandsliðsins í handbolta gegn Litháen í nóvember 2020. Eftir það varð stórfelldur vatnsleki í höllinni þar sem þúsundir lítrar af heitu vatni láku á gólfið.

Íslensku handboltalandsliðin geta ekki spilað í Laugardal

„Ég fékk þær upplýsingar frá forstöðumanni hallarinnar fyrir skömmu að gömlu pallarnir sem eru fyrir neðan aðalstúkuna eru hreinlega ónýtir. Það þarf að panta nýja stúku inn. Þannig að í raun og veru er neðri hluti stúkunnar ekki til staðar.“

„Það er hægt að leysa þetta að einhverju leiti með vængjunum svo kölluðu, sem eru þarna hinu megin. En þá ertu ekki lengur með áhorfendur þeim megin. Samkvæmt þeim reglum sem við erum undir þarftu að vera með áhorfendur báðu megin til að mega spila. Þannig úr því er Höllin í raun og veru ekki lögleg fyrir okkur fyrr en nýju pallarnir koma,“ sagði Róbert.

Samkvæmt núverandi áætlun koma pallarnir til landsins í janúar og stúkan verður klár í febrúar. Efri hluti stúkunnar er þó í standi. 

Það er enginn heimsendir fyrir HSÍ að flytja leikina á Ásvelli, annað en að lægri tekjur frá miðasölu. „Okkur líður ekkert illa í Hafnarfirði. Þeir hafa tekið vel á móti okkur og vilja allt fyrir okkur að gera. En það er bagalegt að við getum ekki farið í Höllina. Þetta hefur áhrif á miðasöluna þar sem Ásvellir taka ekki á móti jafn miklu fólki. Þannig þegar við erum að selja á leikinn verðum við fyrir tjóni þar.“

„Þetta er bagalegt en svo sem engum að kenna. Það er búið að vera að færa þessa palla fram og til baka. Þetta er komið til ára sinna en það er vont að þetta hafi komið til núna en ekki í upphafi. Það er bara eins og það er. Það þýðir ekkert að gráta það heldur bara vinna úr þeirri stöðu sem er uppi.“

Dagskrá handboltalandsliðanna í haust. Allir leikir sýndir beint á RÚV.

Ísland - Ísrael - Undankeppni EM karla í handbolta. 12. október

Eistland - Ísland - Undankeppni EM karla í handbolta. 15. október

Ísland - Ísrael - forkeppni HM kvenna í handbolta. 05. nóvember

Ísland - Ísrael forkeppni HM kvenna í handbolta. 06. nóvember

Karlalandsliðið er í baráttu um að komast á EM á meðan að kvennalandsliðið er í baráttu um að komast á HM.  „Þetta eru tvö hörku verkefni hjá körlunum gegn Ísrael heima og Eistlandi úti. Við þurfum að vinna ef við ætlum að komast á EM. Gaman að fá að spila aftur heima og þetta eru strákarnir sem spiluðu frábærlega í janúar.“ 

Stelpurnar í baráttu um að komast aftur á stórmót

„Svo eru það stelpurnar sem eru að spila í undankeppni HM. Við sömdum við Ísraela að spila báða leikina heima sem er mjög jákvætt. Við sleppum þá við erfitt ferðalag. Við bindum miklar vonir við að klára það verkefni og fara áfram í undankeppnina sem er í apríl. Það er bjart fram undan eins og við sáum í sumar með U18 ára landsliðið okkar. Við vinnum statt og stöðugt að því að koma kvennaliðinu okkar á stórmót. Það er framtíðarmarkmið og þetta er einn liður í þeirri vegferð,“ sagði Róbert.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Körfuboltinn spilar púsluspil og fer frá Ásvöllum

Karlalandsliðið í körfubolta mun færa sig frá Ásvöllum og spila heimaleik sinn gegn Georgíu í Laugardalshöllinni. Vængir stúkunnar í Laugardalshöll verða nýttir miðsvæðis þar sem gamla stúkan var áður, auk þess sem sérstök 'courtside' sæti verða sett upp. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ er spenntur fyrir leiknum í Laugardalshöll.

Ísland - Georgía - undankeppni HM karla í körfubolta. 11. nóvember. BEINT Á RÚV

„Vængirnir verða notaðir sem stúkan niðri. Það má orða það þannig. Við höfum ekki notað þessa vængi áður því fyrir körfuboltavöllinn þarftu svolítið að sitja á ská og þá sérðu ekki allt. Það er vont þannig við höfum ekki nýtt þessa vængi. Það sem við gerum í staðinn er að við notum þær stúkur fyrir neðri stúkuna.“

Bláa stúkan víkur fyrir vængjum

„Vængirnir eru færanleg stúka og þeir koma þar sem neðri stúkan var. Margir þekkja hana einfaldlega sem ‘bláu stúkuna’ sem hefur alltaf verið neðst niðri við gólfið. Þessir tveir vængir koma þar ásamt rauðu stúkunni sem hefur oft verið fyrir boðsgesti. Hún hefur verið hinu megin við völlinn en hún fer þangað líka, á þetta svæði.“  

Bláa stúkan er vanalega dregin út en þar sem hún er ónýt er pláss fyrir færanlegu vængina til að fylla það pláss. „Þetta verður smá púsluspil en bæði eru Laugardalshöllin og starfsmennirnir þar tilbúnir til að fara í þetta. Þangað til að hin stúkan kemur er þetta pínu púsluspil,“ sagði Hannes.

Þá verður boðið upp á svokallaða courtside stemningu sem þekkist vel vestan hafs. Þá situr hluti áhorfenda í mikilli nálægð við völlinn.

„Svo setjum við upp svokallaða ‘courtside’ stóla með fram vellinum. Við setjum sæti á móti stúkunni sem við notum þá fyrir okkar boðsgesti. Samstarfsaðilar KKÍ og aðra sem eru á okkar vegum. Þannig búum við til svolítinn slatta af sætum. Þannig þetta verður svolítið öðruvísi uppsetning en þetta er allt þess virði til að spila í Höllinni.“

„Við vitum að fyrir þessa landsleiki hjá okkur í nóvember, og þennan leik hjá strákunum gegn Georgíu, er rosalega mikill áhugi. Það er búið að vera mikið að hafa samband við okkur upp á miða. Við verðum að nýta þetta til að geta komið allavega tvö þúsund manns í húsið.“

Úr Ólafssal í Laugardalinn

Ísland hefur spilað síðustu landsleiki sína í Ólafssal en þar hefur myndast góð stemning hjá þeim 800 áhorfendum sem salurinn tekur.

„Það hefur verið frábært að vera í Ólafssal. Það hefur verið hugsað mjög vel um okkur og gott að vera þar. Í rauninni myndi maður klárlega vilja vera þar áfram ef við gætum verið með 1000-1500 sæti í viðbót.“  

„Það er allt þröngt þar þannig það hefði verið erfitt að gera það, en okkur hefur liðið mjög vel í Ólafssal. Haukarnir og allir hafa gert allt til að láta okkur líða vel. En á endanum er Laugardalshöll okkar þjóðarleikvangur. Það er það sem við höfum verið að berjast fyrir, varðandi að fá þjóðarleikvang og fá aðstöðu í Laugardalshöllinni og annað. Þannig þegar tækifærið er komið til að vera þar, og vera með 1200-1300 fleiri áhorfendur heldur en við höfum verið með á undanförnum leikjum. Áhuginn er þannig svo að þetta er það sem við þurfum að gera.“

„Þetta er mjög mikilvægur leikur sem við erum að fara að spila við Georgíu sem skiptir ofboðslega miklu máli að vinna. Allt verður gert til þess og með enn þá öflugri stuðningi áhorfenda þá er allt hægt.“

„Þetta er aðstaðan sem við höfum upp á að bjóða og getum gert vel. Ég veit að við munum geta gert þetta jafn vel í Laugardalshöllinni og við gátum gert í Ólafssal. Þetta verður áhugavert og skemmtilegt. Í rauninni ofboðslega gaman að geta spilað fyrir framan fleiri áhorfendur.“

Mynd með færslu
 Mynd: - - RÚV

Ný þjóðarhöll á áætlun fyrir árslok 2025

Reykjavíkurborg og ríkisstjórnin hafa unnið í sameiningu að áformum um nýja Þjóðarhöll sem á að vera reiðubúin fyrir árslok 2025. Hingað til hafa íslensku landsliðin spilað á undanþágum.

„Við erum alltaf á þessum undanþágum. Hvað á maður að segja? Ég skil alveg vel FIBA. Menn eru orðnir pínu þreyttir á okkur í öllu þessu saman, þannig ég skil það alveg. Það er bara þannig og við breytum því ekki,“ sagði Hannes.

„Það er búið að setja nýja þjóðarhöll á dagskrá. Við sáum það í dag í fjármálum ríkisins að það er búið að setja pening til hliðar í það verkefni. Við bindum miklar vonir við þá tímalínu sem kom þar fram, og við getum verið að horfa á nýja höll 2025-26, eins og búið er verið að tala um. Það er fyrir öllu.“ - Róbert.

„Við bíðum spennt eftir því að sjá þjóðarhöllina rísa og koma henni í gang sem fyrst. Það er mjög gott að vera komið með Laugardalshöllina eins og hún er, en þjóðarhöllin er síðan það sem við viljum fara að sjá. Það er meiri vinna farin af stað þar sem er frábært. En það er líka vont að Ármann, sem er mjög öflugt körfuboltafélag, missir mikið af æfingum þegar bæði við og aðrir erum að nota Laugardalshöllina. Ármann er með fjölmenna yngri flokka. Við erum að reyna að lágmarka að það gerist,“ bætir Hannes við.

„Þannig við bíðum spennt eftir því að komast í Laugardalshöllina en enn þá spenntari fyrir því að þjóðarleikvangurinn okkar verður kominn," sagði Hannes.

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ, Guðrún Harðardóttir formaður Ármanns, Reynir Stefánsson varaformaður HSÍ, Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sólveig Jónsdóttir framkvæmdastjóri FSÍ, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík, Hannes S. Jónsson formaður KKÍ, Lárus Blöndal forseti ÍSÍ, María Edwardsdóttir framkvæmdastjóri Þróttar, Ingvar Sverrisson formaður ÍBV, Jón Þór Ólason framkvæmdastjóri Ármanns, Valdimar Leó Friðriksson stjórnarmaður ÍSÍ
 Mynd: Einar Örn Jónsson - RÚV
Frá undirritun samninga um nýja þjóðarhöll

Tengdar fréttir

Íþróttir

Fyrsti fundur framkvæmdanefndar þjóðarhallar í íþróttum