Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var kynnt í gær. Það gerir ráð fyrir að áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjald hækki á næsta ári, svo dæmi séu tekin. Runólfur Ólafsson er formaður FÍB.
„Við erum að sjá það að miðað við fjárlögin 2022 þá ætlar ríkið sér að taka yfir 36 prósent í auknar tekjur af bifreiðagjaldi milli ára. Og síðan kemur þetta með nýjar álögur á bæði bensín og dísil. Miðað við það sem er framlagt í frumvarpinu þá má gera ráð fyrir að hækkun bensíngjalda og skatta á bensín þýði hækkun upp á átta og hálfa krónu um það bil á bensíni og 7,60 á dísilolíuna,ׅ“ segir Runólfur.
Þetta fari beint út í verðlagið og bitni mest á þeim sem minnst hafa. Og síðan sé það hækkun eldsneytislítrans og önnur gjöld sem ekki séu tíunduð sérstaklega í fjárlagafrumvarpinu.
„Þetta er að gerast á sama tíma og innviðaráðherra er að tala um stóraukna nýja skattheimtu af notkun almennings af bifreiðum með svokölluðum vegtollum í göngum, yfir brýr og svo framvegis.“
Rafmagnsbílar hækka í verði
Enn fremur verður fullur afsláttur vegna rafmagnsbíla úr sögunni vegna nýs fimm prósenta lágmarksvörugjalds sem sett verður á alla bíla.
„Bara miðað við það sem kemur til framkvæmda núna um áramótin myndi það þýða hækkun á venjulegum rafbílum upp á um 600 þúsund upp í eina milljón. Síðan emur til viðbótar kvótaþakið og þá gæti það tvöfaldað þessa upphæð,“ segir Runólfur.
„Þetta minnir á gamla sögu þegar bifreiðagjaldið var lagt á sem bráðabirgðaskattur í eitt ár og hefur núna verið við lýði í tæplega 30 ár.“
Hann furðar sig á þessum fyrirætlunum.
„Þetta eru gríðarlega miklar auknar álögur sem eru boðaðar í einu vetfangi og við teljum að þetta sé allt of langt gengið eins og þetta er lagt fram núna.“