Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Úkraínumenn hafa náð að landamærum Rússlands

Hér má sjá sigurreifan borgarstjóra úkraínsku landamæraborgarinnar Kozacha ásamt vígreifum hermönnum Úkraínuhers. Þeir náðu síðdegis 11. september 2022 til borgarinnar, sem stendur í tveggja kílómetra fjarlægð frá rússneskri landamærastöð.
 Mynd: VYACHESLAV ZADORENKO / REUTERS
Hersveitir Úkraínumanna ráða nú öllum landamærum Kharkiv-héraðs að Rússlandi. Þeim hefur tekist að stökkva rússneskum hersveitum á brott úr héraðinu. Rússa reyna að reisa nýjar varnarlínur til að stöðva framrás Úkraínumanna.

Hugveitan The Institute for the Study of War greindi frá þessu í morgun og á samfélagsmiðlum má sjá Vyacheslav Zadorenko, sigurreifan borgarstjóra úkraínsku landamæraborgarinnar Kozacha, ásamt vígreifum hermönnum Úkraínuhers.

Þeir náðu síðdegis í gær til borgarinnar, sem stendur í tveggja kílómetra fjarlægð frá rússneskri landamærastöð. Hermálayfirvöld í Rússlandi tilkynntu undanhald sitt frá Kharkiv í gær en svo virðist sem mótspyrna rússneskra hermanna hafi verið lítil við gagnsókn Úkraínumanna í héraðinu.

Það virðast ljósmyndir og myndskeið sanna sem birt hafa verið undanfarinn sólarhring á samfélagsmiðlum. Rússneskar hersveitir gera hvað þær geta til að byggja upp varnir í Donbas.

Undanhaldið verulegt áfall

Úkraínumenn endurheimtu um helgina víðfeðm svæði í sunnan- og austanverðu landinu. Hernaðarsérfræðingar segja undanhaldið verulegt áfall fyrir Rússa í ljósi fyrirætlana innrásarliðsins í austurhluta Úkraínu.

Rússar gerðu eldflaugaárásir á innviði þar í gærkvöld sem leiddu til  umfangsmikils rafmagnsleysis, bæði á endurheimtum svæðum og þeim sem Rússar halda enn.

Stórborgir á borð við Kharkiv voru án rafmagns um hríð og lestasamgöngur fóru úr skorðum.

Rússar halda áfram umfangsmiklum árásum í sunnanverðu Donbas enda hefur markmið þeirra frá því í apríl verið að brjóta á bak aftur varnir Úkraínumanna með atlögum úr norðri og suðri.

Nú hefur verið girt fyrir árásir úr norðri og mat hugveitunnar The Institute for the Study of War er að sókn Rússa að Bakhmut og Donetsk-borg hafi misst allt hernaðargildi. Það verði aðeins til þess að fækka enn í herliði Rússa og draga úr hernaðarmætti þeirra. 

Macron ávítaði Pútín

Emmanuel Macron forseti Frakklands sagði við Vladimír Pútín Rússlandsforseta að það mætti kenna honum um ógnina af meiri háttar kjarnorkuslysi við Zaporizhzhia-kjarnorkuverið.

Þetta kemur fram í samantekt frönsku forsetaskrifstofunnar eftir símtal Pútíns við Macron. Rússlandsforseti lýsti þar ábyrgð Úkraínumanna á linnulausum bardögum og sprengjuárásum við verið sem Rússar náðu á sitt vald í mars.

Stríðandi fylkingar hafa sífellt kennt hvor annarri um árásirnar sem hafa vakið miklar áhyggjur af skelfilegu slysi á borð við það sem varð í Tsjernóbyl árið 1986.

Í gær slökktu Úkraínumenn á sjötta og síðasta kjarnaofni Zaporizhzhia-versins í öryggisskyni.