Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tap Rússa í Úkraínu forsenda fyrir umbótum í Rússlandi

12.09.2022 - 14:42
Mynd: RUV / RUV
Sigur Úkraínu á innrásarliði Rússa er forsenda fyrir lýðræðislegum endurbótum í Rússlandi, segir eiginkona Vladimírs Kara-Murza, rússnesks stjórnmálamanns sem situr í fangelsi í Moskvu vegna andstöðu sinnar við innrás Rússa. Skömmu áður en hann var handtekinn, vann hann með Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingkonu Pírata að skýrslu um pólitíska fanga í Rússlandi fyrir Evrópuráðsþingið. Þórhildur segist hafa beðið hann lengstra orða um að fara ekki til Rússlands, en að hann hafi fundið sig knúinn.

Vladimír Kara-Murza var handtekinn í Moskvu í apríl fyrir það eitt að hafa mælt opinberlega gegn innrás Rússa í Úkraínu; síðan í vor er slíkur málflutningur ólöglegur í Rússlandi og mikill fjöldi fólks hefur verið handtekið og sett í fangelsi fyrir slíkt. Vladimir Kara-Murza hefur síðan þá setið í varðhaldi í Moskvu og reyndar er búið að bæta við ákærum gegn honum. 

„Eiginmaður minn gæti verið að horfa upp á fjórtán ára fangelsi, samkvæmt þessari löggjöf sem var samþykkt eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu, og beinist gegn öllum mótmælendum í Rússlandi, þeim sem eru nógu hugrakkir til að andæfa gegn stríðinu,“ segir Evgenia Kara Murza, eiginkona Vladimirs. Hún var stödd hér á landi í síðustu viku og sótti leiðtogafund Norðurlandaráðsins og Baltneska þingsins, þangað sem fulltrúum stjórnarandstöðunnar í Belarús og Rússlandi var boðið, auk fulltrúa frá Úkraínu. 

„Það eru mótmæli í Rússlandi og við sjáum ennþá fólk mæta út á götur, vitandi fullvel að þau geta farið í fangelsi í langan tíma fyrir það eitt að nota orðið „stríð“ um þessa innrás. Samt mæta þau. Þetta er framtíð Rússlands; þetta er vonarneistinn,“ segir Evgenia. „Til þess að þessi vonarneisti verði einhvern tímann að veruleika, er í fyrsta lagi nauðsynlegt að Úkraína sigri í þessu stríði, og í öðru lagi að samfélag allra lýðræðisríkja haldi áfram að aðstoða Úkraínu.“

Vladimír Kara-Murza hefur lengi verið framarlega í baráttu stjórnarandstæðinga í Rússlandi og vann meðal annars náið með Boris Nemtsov, stjórnmálamanninum sem var myrtur nálægt Kreml í Moskvu árið 2015.
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Vladimir Kara-Murza ber blóm að staðnum þar sem Boris Nemtsov var myrtur í Moskvu árið 2015

 

Kara-Murza komið málstað stjórnarandstæðinga í Rússlandi á framfæri við alþjóðastofnanir, þar á meðal Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, þar sem Kristín Árnadóttir sendiherra mælti fyrir tillögu um rannsókn á stöðu mannréttinda í Rússlandi.

Kara-Murza hefur einnig unnið með Evrópuráðinu, þar sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, var í forsvari fyrir skýrslu um stöðu pólitískra fanga í Rússlandi. 

„Eiginmaður minn vann náið með aðalhöfundi skýrslunnar, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur,“ segir Evgenia Kara-Murza. „Þetta starf var mjög mikilvægt, því svona skýrslur halda athyglinni á pólitískum ofsóknum í Rússlandi.“

„Ég myndi jafnvel kalla hann vin minn, hann Vladimir“ segir Þórhildur Sunna. „Ég hitti hann nokkrum vikum áður en hann var handtekinn. Þá var hann að bera vitni fyrir nefndinni minni, sem var einmitt að vinna þessa skýrslu sem ég kláraði fyrir Evrópuráðsþingið, um pólitíska fanga í Rússlandi.

Ég og fleiri kollegar hans báðum hann að fara ekki aftur til Rússlands, vegna þeirrar miklu hættu sem hann var í að vera handtekinn, vegna þeirra mjög svo opinskáu og gagnrýnu umræðu sem hann hafði viðhaft gagnvart stríðinu gegn Úkraínu, en hann sagði, og hefur svosem endurtekið þetta við marga: hvernig ætla ég að vera pólitíkus í Rússlandi, eða hvetja fólk til að berjast gegn Pútín, ef ég er ekki tilbúinn að gera það sjálfur.“

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV