Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Jarðskjálfti af stærðinni 4,2 norðan við Grímsey

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Jarðskjálfti af stærðinni 4,2 varð laust eftir klukkan eitt í nótt um tíu kílómetra norðan við Grímsey. Skjálftavirkni við Grímseyjarbrotabeltið jókst nokkuð upp úr miðnætti eftir að lítillega hafði dregið úr henni í gær.

Fáar tilkynningar hafa borist Veðurstofunni um að skjálftinn hafi fundist í byggð. Nokkur virkni fylgdi honum, þar af voru nokkrir skjálftar yfir þremur að stærð.

Virknin í nótt er hluti jarðskjálftahrinu sem hófst 8. september, að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni. Alls hafa mælst um sex þúsund skjálftar síðan hrinan hófst, sá stærsti mældist 4,9 aðfaranótt 8. september. 

Þarna er tvö skjálftabelti að finna, Húsavíkur-Flateyjarmisgengið og Grímseyjarbrotabeltið og algengt að skjálftar verði á þeim slóðum. Svipuð skjálftahrina varð þarna 2018. 

Varðskipið Þór liggur við akkeri skammt undan Grímsey. Óvissustigi almannavarna var lýst yfir á föstudaginn vegna skjálftahrinunnar og því óskuðu almannavarnir eftir að varðskipið yrði til taks.

Eiríkur Bragason skipherra sagði í samtali við fréttastofu í gær að óvíst væri hve lengi skipið yrði við eyna. Næsti stöðufundur almannavarna og lögreglunnar á Norðurlandi eystra verður haldinn síðar í dag mánudag.