Ekki nóg gert fyrir tekjulága íbúðaleitendur

Mynd: RÚV / RÚV
Forseti Alþýðusambandsins furðar sig á að í fjárlagafrumvarpinu sé ekki að finna aðgerðir í húsnæðismálum fyrir tekjulága. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir of snemmt að segja til um áhrif frumvarpsins á kjaraviðræður.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna úr gildi í næsta mánuði og samningar á opinberum vinnumarkaði verða lausir í mars á næsta ári. Fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt í dag.

„Maður hefði viljað sjá að ríkið hefði gripið til þess ráðs að auka tekjur sínar t.d. með hækkun á bankaskatti eða auka fjármagnstekjuskattinn og sækja peningana þangað þar sem nóg er til af þeim,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambandsins

En er fjárlagafrumvarpið gott innlegg inn í kjaraviðræður?

„Ég held að það sé nú of snemmt að segja til um það á þessum tímapunkti. Svo sjáum við að þar sem aukningin er til málaflokka, þá eru það kannski fyrst og fremst þættir sem eru til aldaðra, öryrkja og heilbrigðiskerfið. Svo eru þarna einstaka liðir sem við erum að skoða betur og verður að tjá okkur um á næstu dögum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„ Ja, það eru auðvitað nokkrir þættir sem benda til þess að þetta geti jafnvel ýtt undir verðbólgu eða alla vega ekki dregið úr henni. Það er verið að hækka liði þarna sem eru beinlínis fallnir til að auka hana. Það er því miður ekki verið að grípa nægilega vel til mála í húsnæðismarkaðnum. Maður hefði viljað sjá aukin framlög inn í Almenna íbúðakerfið t.d. En þar bendir allt til þess að það er verið að draga frekar saman en hitt. Og það er auðvitað mjög miður á þeim tíma sem vandamálin liggja á húsnæðismarkaði,“ segir Kristján Þórður.

Almenna íbúðakerfið útvegar tekjulágum íbúðir og er rekið fyrir fjármuni frá ríki og sveitarfélögum.