Auknir skattar á bensín geti hækkað vöruverð

Mynd: RÚV / RÚV
Flestöll heimili landsins munu finna fyrir aukinni skattheimtu sem felst í fjárlagafrumvarpinu. Verð á eldsneyti hækkar og áfengi. Þá er viðbúið að auknar álögur á eldsneyti hækki flutningskostnað og vöruverð.

Þó svo að rafbílum hafi fjölgað mikil á Íslandi þá eru níu sinnum fleiri sem aka bensínbílum. Þeir eru 153 þúsund talsins. Í fjárlagafrumvarpinu eru boðaðar auknar gjaldtökur á þennan hóp meðal annarra. 

Áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjald hækkar um 7,7% á næsta ári. Heimilin munu finna fyrir þessum hækkunum. 

„Já, svo sannarlega. Við erum að sjá mikla aukningu af skattheimtu af bifreiðum og bensíni. Svo má ekki gleyma því að verð á bensíni hefur hækkað töluvert, cirka um 100 krónur lítrinn á ári eða svo. Það skilar sér í auknum virðisaukaskatti í ríkissjóð,“ segir Auður Alfa Ólafsdóttir hjá verðlagseftirliti Alþýðusambandsins.

Skattlagning sem tekur gildi á næsta ári bætist því ofan á þessa hækkun. 

„Það eru bara öll heimili í landinu sem finna fyrir þessu. Þetta bætist ofan á þá verðbólgu sem er til staðar. Þannig að þetta eru mjög sérstakar aðgerðir til að draga úr áhrifum verðbólgunnar og pínu öfugsnúin. En auðvitað eru það mest lágtekjuheimilin sem munu finna fyrir þessum aðgerðum,“ segir Auður.

Félag atvinnurekenda hefur reiknað út verð á áfengi miðað við hækkun áfengisgjaldd. 

Léttvínsflaska kostar núna 2.399 en viðbúið er að hún kosti 2.579 á næsta ári.

„Við lýsum bara furðu á því að hæstu áfengisskattar í Evrópu skuli hækka svona duglega. Skattpíningin á kaupendum áfengis, sem vilja kaupa sér bjórkippu eða léttvín með matnum, er orðin ævintýranleg. Og ríkið farið að taka í sinn hlut yfir 70% af verði léttvínskassans og 92% af verði vodka eða ginflösku,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Þá hefur hækkun á bensíngjaldi áhrif á rekstur fyrirtækja. 

„Flutnings- og dreifingakostnaður vegur talsvert þungt í vöruverði hjá mörgum okkar félagsmanna. Við erum búin að sjá gríðarlegar hækkanir á alþjóðlegum skipaflutningu, á bensín- og díselverðinu,“ segir Ólafur.

Ólafur segir þessar gjaldahækkanir ekki hjálpa fyrirtækjum til að sporna gegn verðhækkunum. 

„Og er líklegt til að stuðla að hækkunum á vöruverði, því miður,“ segir Ólafur.