Íslenskunám ekki ofarlega á kröfulista Eflingar

11.09.2022 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Formaður Eflingar segir það ekki verða ofarlega á lista verkalýðshreyfingarinnar að gera þá kröfu í kjarasamningum að erlendu starfsfólki verði gefinn kostur á íslenskukennslu á vinnutíma.

Um 53 prósent félagsmanna Eflingar eru af erlendum uppruna og því er spáð að erlent starfsfólk gæti orðið allt að helmingur vinnuaflsins fyrir miðja öldina. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emiritus í íslenskri málfræði, sagði í aðsendri grein á Vísi á föstudag að það væri upplagt að verkalýðshreyfingin gerði þá kröfu í væntanlegum samningum að erlendu starfsfólki yrði gefinn kostur á íslenskukennslu á vinnutíma - og að atvinnurekendur bæru kostnaðinn af þeirri vinnuskerðingu sem af því hlytist.

„Þetta eru að mínu viti einhvers konar skilaboð úr fílabeinsturni, þó ég dragi ekki í efa að meiningin þarna á bakvið sé góð. Ef valdastéttin og þau sem tilheyra menntaelítunni hafa raunverulegar áhyggjur af stöðu íslenskrar tungu þá ætti fókusinn að vera á það að hér þyrfti fólk ekki að þræla sér út til þess að geta tryggt sér grundvallarhluti eins og húsnæði,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Undarlegar hugmyndir menntaelítu

Sólveig segir aðflutt láglaunafólk koma hingað til lands til að afla tekna og leita að betra lífi, „en þeim mætir svo til dæmis húsnæðismarkaður sem valdastéttin hefur afhent auðstéttinni þar sem leigan er svo há að hún étur upp stóran hluta af ráðstöfunartekjum sem gerir það að verkum að fólk þarf að vinna gríðarlega langan vinnudag bara til þess eins að hafa í sig og á. Fólk vinnur andlega og líkamlega erfiða vinnu sem gerir það líka að verkum að hugur þeirra er kannski ekkert sérstaklega fókuseraður á það að læra tungumál,“ segir Sólveig. 

Sólveig segir að mögulega verði einhvern tímann hægt að gefa eftir kröfur til atvinnurekenda til þess að félagsfólk fái tíma til að stunda íslenskunám en kjaraviðræðurnar í haust snúist um að fólk fái laun sem dugi þeim til að lifa af og að bregðast við því að íslensk valdastétt hafi brugðist verka- og láglaunafólki, „þannig að ég get ekki séð að þetta verði eitthvað sérstaklega ofarlega á lista okkar,“ segir hún.

„Það er náttúrulega bara afskaplega undarlegt að þau sem tilheyra einhverri menntaelítu skuli ætla að setja ábyrgðina á verkalýðsfélög verka- og láglaunafólks sem að augljóslega hafa um stærri og veigameiri hluti að hugsa akkúrat núna heldur en það að vernda íslensku þjóðtunguna,“ segir Sólveig.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV