Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þrír stórir jarðskjálftar riðu yfir Indónesíu

10.09.2022 - 00:30
epa07248828 An officer examines a seismograph at the Anak Krakatau volcano monitoring station in Carita, Banten, Indonesia, 26 December 2018. According to the Indonesian National Board for Disaster Management (BNPB), at least 429 people are dead and 1.459 others have been injured after a tsunami hit the coastal regions of the Sunda Strait.  EPA-EFE/ADI WEDA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Jarðskjálfti af stærðinni 6,1 reið yfir Papúa-hérað í Indónesíu þegar laugardagsmorgunn var runninn upp þar í landi. Skjálftar af stærðinni 5,8 og 5,9 fylgdu í kjölfarið samkvæmt tilkynningu frá Jarðeðlisfræðistofnun Bandaríkjanna (USGS).

Ekki hafa borist tilkynningar um manntjón eða skemmdir á mannvirkjum. Skjálftarnir áttu báðir upptök sín á fimmtán kílómetra dýpi í um 270 kílómetra fjarlægð frá bænum Abepura. Flóðbylgjuviðvörun var ekki gefin út.

Jarðfræðistofnun Indónesíu (BKMG) tilkynnti að búast mætti við einhverju tjóni og áframhaldandi skjálftavirkni. Einkum voru íbúar í bæjum nærri Abepura hvattir til að vera á varðbergi. Skjálftarnir fundust nokkuð vel á þeim slóðum.

Jarðskjálftar algengir á þessum slóðum

Jarðskjálftar eru algengir í Indónesíu enda er eyríkið innan Kyrrahafseldhringsins svokallaða þar sem hátt hlutfall jarðskjálfta og eldgosa heimsins verður.

Á seinasta ári fórust yfir 100 manns í jarðskjálfta af stærðinni 6,2 á Sulawesi-eyju og þúsundir urðu heimilislausar. Byggingar hrundu þá til grunna í hafnarborginni Mamuju. 

Árið 2018 reið jarðskjálfti af stærðinni 7,2 yfir Indónesíu sem kom af stað flóðbylgju sem varð á þriðja þúsund manns að bana auk þess sem þúsund til viðbótar var saknað. 

Á öðrum degi jóla 2004 varð heljarmikill jarðskjálfti í Aceh-héraði. Hann mældist 9,1 að stærð, kom af stað flóðbylgju og grandaði 170 þúsund mannslífum á Indónesíu.

Fréttin var uppfærð klukkan 05:42 með nánari upplýsingum um jarðskjálftana.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV