Jarðskjálftahrinan óþægileg — yfir 4100 skjálftar mælst

10.09.2022 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
„Ég held að það sé alltaf óþægilegt að vera í jarðskjálftahrinu, sérstaklega þegar þetta er orðið svona eins og þetta er búið að vera hérna. Þetta er óþægilegt. Maður verður varnarlaus. Og hvað ætlum við að gera ef það kemur risastór skjálfti eða eldgos og við erum bara einhvers staðar út í hafi,“ segir  Halla Ingólfsdóttir, Grímseyingur.

Hressileg hviða í nótt

Almannavarnir lýstu síðdegis í gær yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinunnar í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi Eystra. Hrinan hófst á fimmtudagsmorgun og síðan þá hafa yfir 4100 skjálftar mælst á svæðinu austan við Grímsey. 

„Frá miðnætti í dag þá eru þetta yfir 800 skjálftar. Síðan hrinan hófst hefur hún verið að koma svolítið í hviðum, en jarðskjálftavirknin hefur verið nokkuð viðvarandi. Stærstu skjálftarnir hafa verið að koma í hviðum, það kom svolítið hressileg hviða í nótt,“ segir Kristín Elísa Guðmundsdóttir er náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni.

Stærsti skjálftinn í nótt mældist fjórir klukkan korter í þrjú. Kristín Elísa segir ekkert benda til þess núna að eldgos sé í vændum á þessu svæði. Upptök skjálftanna eru á flekaskilunum en það sé ekki hægt að útiloka stærri skjálfta. „Í svona hrinum er alltaf aukin hætta á að það mælist stærri skjálftar.“

Hvað yrði það þá stór skjálfti? „Við getum alveg búist við skjálfta á þessu svæði sem yrði 5 að stærð en á Tjörnesbrotabeltinu geta skjáfltar alveg orðið rúmlega sex að stærð.“

Stærri og örari skjálftar en venjulega

Hrinan er svipuð þeirri sem reið yfir á svæðinu fyrir fjórum árum. Þá varð stærsti skjálftinn 5,2 að stærð af sjö þúsund skjálftum í heildina. 

Halla telur þó ekki að Grímseyingar séu að flýja í land út að jarðskjálftunum. Þau séu ýmsu vön. „Það er ekki óvenjulegt að það séu jarðskjálftar á þessum tíma en að þeir séu af þessari stærð. Maður finnur meira fyrir þeim, þeir eru stærri og örari, það er svona aðallega það sem er óvenjulegt við þetta,“ segir Halla.

Hefur eitthvað fallið úr hillum? „Nei ekki hjá mér eða öðrum hérna eftir því sem ég best veit,“ segir Halla.

Óvissustig almannavarna þýðir aukið eftirlit og fólk er hvatt til að gera ráðstafanir vegna jarðskjálfta. Á heimasíðu almannavarna er hægt að finna leiðbeiningar um það. „Þeir sem eru næst upptökunum í Grímsey ættu helst að passa upp á að það séu ekki lausir munir sem geta dottið á fólk þar sem það sefur og þar sem það situr mikið. eins og t.d. fyrir framan sjónvarpið,“ segir Kristín Elísa.