Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Einstakt myndband sýnir fyrsta fund Karls III og Truss

epaselect epa10173052 British Prime Minister Liz Truss leaves Downing Street for the House of Commons to pay tributes to Queen Elizabeth II in London, Britain, 09 September 2022. Britain's Queen Elizabeth II died at her Scottish estate, Balmoral Castle, on 08 September 2022. The 96-year-old Queen was the longest-reigning monarch in British history.  EPA-EFE/TOLGA AKMEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Karl III konungur hitti Liz Truss forsætisráðherra Bretlands í Buckingham-höll síðdegis í gær á þeirra fyrsta fundi frá því Karl varð konungur við fráfall móður hans. Karl verður formlega lýstur konungur í dag.

Fundir þjóðarleiðtoga Bretlands og forsætisráðherra eru almennt algerlega í trúnaði. Hvorki eru ritaðar fundargerðir né gerðar upptökur en í dag var gerð sú undantekning að hirðin birti myndskeið frá upphafi fundar. 

Þar má sjá Karl taka á móti og þakka Truss fyrir að koma með svo skömmum fyrirvara. Konungur segir að sér hafi þótt hjartnæmt hve margt fólk kom að Buckingham-höll til að votta samúð sína.

Karl segir að hann hafi, líkt og fleiri, kviðið þeirri stund að Elísabet drottning kveddi en að hann myndi gera það sem í hans valdi stæði til að láta allt ganga upp. Að því búnu setjast þau niður og ræða saman í trúnaði. Forsætisráðherra Bretlands ber að greina konungi vikulega frá stöðu mála í landinu.  

Karl verður í dag lýstur formlega konungur yfir Bretlandi þegar arftakaráðið, sérstök nefnd um valdaskipti, kemur saman klukkan tíu. Vilhjálmur krónprins verður einnig viðstaddur fund ráðsins.

Klukkutíma síðar verður yfirlýsing um valdaskiptin lesin opinberlega á svölum Saint James Hallarinnar í Westminster. Að því loknu verður flaggað í heila stöng í 26 klukkustundir til að fagna nýjum konungi. Þá verður flaggað í hálfa stöng að nýju til að minnast drottningarinnar.