Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bandarískur dómstóll heimilar neyðarlán til SAS

Mynd með færslu
 Mynd: SAS
Bandarískur gjaldþrotadómstóll heimilaði í dag þarlendum fjárfestingasjóði að veita skandinavíska flugfélaginu SAS neyðarlán meðan á greiðslustöðvun stendur.

Fjárfestingasjóðurinn Appollo Capital Management veitir lánið sem er jafnvirði tæpra 100 milljarða íslenskra króna. Því er ætlað að tryggja fjármögnun flugfélagsins næstu níu til tólf mánuði.

Dómarinn hafði varann á í úrskurði sínum og hvatti lögmenn SAS til að nýta helgina til að breyta orðalagi lánasamningins.

Hann hafði áhyggjur af að skilmálar lánasamningsins veittu lánveitandanum mikla yfirburði til að auka hlut sinn í félaginu eftir skuldbreytinguna sem búist er við að verði snemmsumars á næsta ári.

Fram kom að SAS þarfnaðist fjárins bæði til endurskipulagningar og til að greiða flugfarþegum bætur  vegna verkfalls flugmanna í sumar. Flugfélagið og dótturfélög þess sóttu um greiðsluskjól vestra í júlí og var það afleiðing af verkfallinu.

Norska flugmálastjórnin hefur gefið SAS fimm daga frest til að greiða bætur vegna flugferða sem var aflýst. Tonje Sund, blaðafulltrúi félagsins, segir nauðsynlegt að fá lengri frest til að greiða aukakostnað farþega á borð við hótel og bílaleigubíla.

Fleira hafi haft áhrif en forsvarsmenn flugfélagsins vonist til að fá svigrúm til endurskipulagningar. Seinustu tvö ár voru SAS mjög erfið, rétt eins og öðrum flugfélögum, vegna kórónuveirufaraldursins.    

Fréttin var uppfærð kl. 7:27 10. september, með upplýsingum um frest norsku flugmálastjórnarinnar.