Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Undirbúningur hafinn að útför drottningar

epaselect epa10171162 People gather at the gates of Buckingham Palace following the official announcement of the death of Queen Elizabeth II, London, Britain, 08 September 2022. According to a statement issued by Buckingham Palace on 08 September 2022, Britain's Queen Elizabeth II has died at her Scottish estate, Balmoral Castle, on 08 September 2022. The 96-year-old Queen was the longest-reigning monarch in British history.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Það verður í mörg horn að líta í Bretlandi næstu daga í kjölfar andláts Elísabetar Bretadrottningar. Arftakaráðinu er ætlað að koma saman í St. James höll á laugardag. Ráðið lýsir formlega yfir í ávarpi af svölum hallarinnar að Karl III. verði arftaki Elísabetar.

Karl hefur þegar tekið við völdum og greint frá að hann haldi því nafni. Karl II. var af ætt Stúarta og sat við völd á 17. öld. Nýi konungurinn veitir forsætisráðherra, ríkisstjórn og leiðtogum stjórnarandstöðu áheyrn auk erkibiskupsins af Kantaraborg og prófastsins í Westminster Abbey.

Fánum á opinberum byggingum og víðar verður flaggað í fulla stöng meðan á samkomu arftakaráðsins stendur en að sólarhring liðnum verða þeir færðir í hálfa stöng. Þannig verður þar til daginn eftir útför drottningar. 

Kista drottningar verður flutt frá Balmoral-kastala  að Holyroodhouse, opinberu aðsetri þjóðhöfðingjans í Skotlandi. Að lokinni minningarathöfn í St. Giles-dómkirkjunni, þar sem konungsfjölskyldan minnist drottningar, verður kirkjan opin almenningi í sólarhring.

Að því búnu er búist við að flogið verði með kistuna til Lundúna. Hún fer fyrst til Buckingham-hallar, opinbers bústaðar þjóðarleiðtoga Bretlands, og þaðan í hátíðlegri líkfylgd til Westminster Hall.

Þar verður haldin stutt athöfn en eftir það getur almenningur heimsótt kirkjuna í fimm sólarhringa til að votta drottningu virðingu sína, 23 stundir á dag. Tilkynning um dagsetningu útfararinnar kemur frá hirðinni.

Útför Elísabetar verður gerð frá Westminster Abbey. Viðbúið er að athöfnin verði fjölsóttasta útför allra tíma, konungsfjölskyldan, ráðamenn og þjóðarleiðtogar verða viðstaddir, almenningur safnast saman á götum úti auk þess sem líklegt þykir að milljarðar fylgist með í gegnum sjónvarp og aðra miðla.

Tveggja mínútna þögn verður um allt Bretaveldi en að lokinni athöfn verður kista drottningar flutt til Windsorkastala þar sem Elísabet verður lögð til hinstu hvílu. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV