Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lýsa yfir óvissustigi vegna hrinunnar við Grímsey

09.09.2022 - 16:20
Mynd með færslu
Þúsundir skjálfta hafa orðið við Grímsey frá því að skjálfti af stærðinni 4,9 skók eyjuna aðfaranótt 8. september 2022 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar úti fyrir Norðurlandi.

Hrinan er á Grímseyjarbrotabeltinu sem er þekkt jarðskjálftasvæði í Skjálfandadjúpi austur af Grímsey. Svipuð skjálftahrina var á þessum slóðum 2018. Um 2,600 skjálftar hafa mælst frá því skjálfti að stærð 4,9 reið yfir snemma í gærmorgun. Hrinan hefur verið nokkuð stöðug en klukkan 13:20 í dag varð skjálfti upp á 4,1 og hafa þó nokkrir skjálftar yfir 3 að stærð mælst í kjölfarið. 

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að óvissustig almannavarna þýði að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hvetja fólk sem býr á þekktum jarðskjálftasvæðum til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta. Upplýsingar má nálgast hér. 

 Að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands eru engin merki um gosóróa eða neitt þess háttar á svæðinu.