Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Áfrýja úrskurði um sérstakan matsmann vegna húsleitar

Pages from the affidavit by the FBI in support of obtaining a search warrant for former President Donald Trump's Mar-a-Lago estate are photographed Friday, Aug. 26, 2022. U.S. Magistrate Judge Bruce Reinhart ordered the Justice Department to make public a redacted version of the affidavit it relied on when federal agents searched Trump's estate to look for classified documents. (AP Photo/Jon Elswick)
 Mynd: AP - RÚV
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hyggst áfrýja úrskurði alríkisdómara í Flórída um að hindra aðgang ráðuneytisins að þúsundum skjala sem hald var lagt á við húsleit á heimili fyrrverandi forseta. Það tekur einnig til fjölda leyniskjala.

Alríkisdómarinn, Aileen Cannon, ákvað að verða við beiðni Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að tilnefna sérstakan matsmann til að fara yfir gögnin og leggja óháð mat á gildi þeirra. 

Dómsmálaráðuneytið segir í áfrýjunarbeiðninni að þetta hindra glæparannsókn sem stendur yfir á ástæðum þess að forsetinn hafði gögnin í fórum sínum.

Þá sé nauðsynlegt að halda leyniskjölum frá matsmanni tilnefndum af Trump, enda eigi hann ekkert tilkall til þeirra. Varsla þeirra falli meðal annars undir lög um njósnastarfsemi auk þess sem öll opinber sköl eigi heima á Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna en ekki á einkaheimili. 

Ekki hefur verið tilgreint nákvæmlega hvað er að finna í þeim aragrúa skjala sem fannst við húsleitina. Bandarískir miðlar segja að þar séu gögn um varnarmál ónefnds erlends ríkis, þar á meðal kjarnorkuvopnabúr þess.

Trump sakaði ráðuneytið og alríkislögregluna um blekkingar en hrósaði dómaranum í hástert fyrir hugrekki. Trump skipaði hana sjálfur í embætti á stjórnartíð sinni.