Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

243 þúsund ferðamenn í ágúst

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Um 243 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í síðasta mánuði. Þetta er um 60% aukning frá sama mánuði í fyrra og á pari við ágústmánuð 2019, áður en heimsfaraldur skall á.

Bandaríkjamenn eru langsamlega fjölmennastir í hópi erlendra ferðamanna, en um 30% ferðamanna, 73 þúsund manns, komu þaðan. Næstir eru Þjóðverjar en um 24 þúsund þýskir ferðamenn komu til Íslands í síðasta mánuði.

Það sem af er ári hefur um 1,1 milljón erlendra farþega komið til landsins. Á sama tíma í fyrra voru þeir 336 þúsund. Enn er þó nokkuð í að ná þeim fjölda sem var fyrir faraldur. Árið 2018, sem var metár, höfðu 1,6 milljónir ferðamanna komið til landsins fyrstu átta mánuði ársins.

 

Þegar tölur yfir þjóðerni ferðamanna eru skoðaðar er fjarvera Kínverja áberandi. Árið 2019 komu 13 þúsund Kínverjar til landsins og voru þeir fjórða fjölmennasta þjóðerni ferðamanna. Í ár rata Kínverjar ekki á topp 10 listann. Enn eru samkomutakmarkanir í Kína og strangar reglur um ferðalög til og frá landsinu.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV