Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Yfir þúsund skjálftar við Grímsey frá því í nótt

08.09.2022 - 18:52
Mynd með færslu
Sæfari siglir út úr Grímseyjarhöfn Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ekkert lát er á skjálftahrinunni norðaustur af Grímsey en stöðug virkni hefur verið á svæðinu í allan dag. Stærsti skjálftinn í hrinunni mældist 4,9 að stærð og fannst hann vel í eyjunni. 

Um þúsund skjálftar hafa mælst við Grímsey frá því í nótt. Stærsti skjálftinn mældist klukkan fjögur í nótt. Þrír skjálftar yfir fjórum að stærð mældust í kjölfarið, sá síðasti klukkan sex í morgun.

Upptökin voru norðaustur af Grímsey. Veðurstofu Íslands barst fjöldi tilkynninga frá fólki, víða á Norðurlandi, sem fann fyrir skjálftanum.

Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að yfir fjögur hundruð skjálftar hafi mælst frá því á hádegi og því ekkert lát á hrinunni en þær séu algengar á svæðinu. „Þetta er bara svona hefðbundin virkni á þessu svæði. Á þessu brotabelti sem er þarna við Grímsey. Það er búið að vera alveg töluverð virkni í dag.“