Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Úkraínsk börn talin flutt nauðug til Rússlands

epa10157481 Debris of a rocket were collected by policemen near near a recently shelled school in Kharkiv, Ukraine, 03 September 2022 amid Russia's military invasion. Kharkiv and surrounding areas have been the target of heavy shelling since February 2022, when Russian troops entered Ukraine starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis.  EPA-EFE/SERGEY KOZLOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sameinuðu þjóðirnar telja trúverðugt að Rússar hafi flutt úkraínsk börn nauðug til ættleiðingar í Rússlandi. Rússar eru sakaðir um margvísleg mannréttindabrot önnur. Þetta kom fram á fundi öryggisráðsins í dag.

Ilze Brands Kheris, yfirmaður Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í New York, segir að fylgdarlaus börn séu ýmist flutt til þeirra svæða í Úkraínu sem Rússar hafa á valdi sínu eða til Rússlands sjálfs.

Hún kveðst uggandi yfir að rússnesk stjórnvöld virðist hafa komið á kerfi sem auðveldar veitingu ríkisborgararéttar til þessarra barna og að í kjölfarið séu þau ættleidd til rússneskra fjölskyldna.

Kheris telur þetta hluta stærri áætlunar sem snerti þvingaðan flutning Úkraínumanna á hvaða aldri sem er til svæða sem Rússar ráða.

Auk þess segir hún rússneskar hersveitir á hernumdum svæðum gera skipulega vopnaleit á Úkraínumönnum en Sameinuðu þjóðirnar álíta það athæfi hreint mannréttindabrot.

„Við höfum upplýsingar um að vopnaðar sveitir Rússa geri líkamsleit á fólki, neyði fólk til að afklæðast og krefji það svara um afar persónuleg mál, fjölskyldutengsl og stjórnmálaskoðanir,“ segir Kheris.

Sterkur grunur er um að konur verði fyrir kynferðislegu ofbeldi meðan á yfirheyrslum stendur. Sömuleiðis telja Sameinuðu þjóðirnar að Úkraínumenn tengdir ríkisstjórn eða her landsins hafi mátt þola pyntingar og dvöl í rússneskum fangabúðum.