Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sanderson látinn eftir handtöku

Mynd með færslu
 Mynd: LARS HAGBERG / AFP
Myles Sanderson er látinn eftir handtöku lögreglu. Hann var ásamt Damien bróður sínum grunaður um að hafa orðið tíu að bana í hnífstunguárásum í Kanada.

Lík Damiens fannst á mánudagskvöld í í James Smith Cree frumbyggjasamfélaginu, þar sem voðaverkin voru framin á sunnudag. Var bróðir hans grunaður um að hafa valdið dauða hans en augljósir áverkar voru á líkinu. Rannsókn á andlátum beggja er þegar hafin.

Lögregla í Saskatchewan-fylki tilkynnti fyrr í kvöld að Sanderson væri fundinn nærri bænum Rosthern í Saskatchewan-fylki um klukkan hálf fjögur að staðartíma, klukkan hálf tíu að íslenskum tíma. 

Lést áður en hann komst undir læknishendur

Fjöldi fjölmiðla í Kanada greindi frá að Myles Sanderson væri allur og vitnuðu í ónafngreinda heimildarmenn innan lögreglu. Eftir að tilkynning barst um að Sanderson væri fundinn sagði lögregla alla ógn gagnvart almennum borgurum að baki. 

Klukkustund áður en Sanderson var handtekinn gaf lögregla út tilkynningu þess efnis að vopnaður maður hefði stolið hvítum Chevrolet pallbíl. Þegar var álitið að þar væri Sanderson á ferð.

Bíllinn var þvingaður út fyrir veg en lögregla segir Sanderson hafa sýnt einhvers konar sjúkdómseinkenni strax eftir handtökuna og því var hann fluttur umsvifalaust á sjúkrahús en var úrskurðaður látinn þegar þangað kom. 

Fréttamaður AFP sá skömmu eftir að tilkynningin barst hvar nokkrir lögreglubílar umkringdu hvítan pallbíl við vegarbrún hraðbrautar. Þar með lauk fjögurra daga eltingarleik sem teygði sig um þrjú fylki í Kanada. 

Fórnarlömbin nafngreind

Ekki er enn vitað hver var kveikjan að voðaverkunum en Myles Sanderson var þekktur fyrir að beita ofsafengnu ofbeldi sem leiddi af sér 59 sakfellingar. 

Hann var á skilorði og var leitað síðan í maí þegar hann mætti ekki til að afplána fimm ára dóm fyrir líkamsárás, rán og hótanir. Grunur leikur á að bræðurnir hafi beint atlögu sinni vísvitandi að einhverjum fórnarlambanna en myrt önnur af handahófi. 

Dánardómsstjóri hefur nafngreint öll þau sem myrt voru í árásinni á sunnudag, sex karlmenn og fjórar konur á aldrinum 23 til 78 ára. Öll utan eitt bjuggu í Cree, ekkjumaður sem bjó ásamt fullorðnu barnabarni sínu í Weldon, nærliggjandi bæ. 

Sautján fullorðnir og táningur særðust í árásum bræðranna sem eru einhverjar þær mannskæðustu í Kanada á síðari tímum. Tíu liggja enn á sjúkrahúsi, þar af þrjú sem eru mjög alvarlega særð samkvæmt upplýsingum heilbrigðisyfirvalda í Saskatchewan-fylki. 

Fréttin var uppfærð klukkan 3:56 með nánari upplýsingum um atburðarásina.

epa10160300 A handout combination photo made available by the Royal Canadian Mounted Police showing suspects Damien Sanderson (L) and Myles Sanderson (R) who are actively being sought by police in connection with stabbings in the James Smith Cree Nation, Saskatchewan, Canada, 04 September 2022.  EPA-EFE/ROYAL CANADIAN MOUNTED POLICE / HANDOUT EDITORIAL USE ONLY, NO SALES HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: AP - RÚV