Mál ríkisins gegn Iceland tekið fyrir á ný

08.09.2022 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia - RÚV
Munnlegur málflutningur hefst á morgun í máli íslenska ríkisins gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland. Íslensk stjórnvöld freista þess að fá vörumerkjaskráningu Bretanna á orðinu Iceland fellda úr gildi. Lögfræðingur hjá Hugverkastofu segir málið fordæmisgefandi fyrir skráningu ríkjaheita á alþjóðavísu.

Vilja banna notkun orðsins Iceland

Árið 2016 fékk breska verslunarkeðjan Iceland skráningu á vörumerkinu Iceland hjá Hugverkastofnun ESB. Íslensk stjórnvöld höfðuðu í kjölfarið mál og árið 2019 var skráningin felld úr gildi. Breska keðjan áfrýjaði niðurstöðunni. Á morgun hefst munnlegur málflutningur fyrir áfrýjunarnefnd Hugverkastofnunar ESB.

Margrét Hjálmarsdóttir er yfirlögfræðingur Hugverkastofu á Íslandi. Hvaða þýðingu hefði það ef Ísland tapaði málinu?

Það myndi þýða að íslensk fyrirtæki gætu hugsanlega ekki notað orðið Iceland í sínum vörumerkjum til að auðkenna þær vörur sem þau eru að selja

Einhverjir kunna að reka upp stór augu. Hvernig er hægt að banna fyrirtækjum að kenna sig við landið sitt? En málið er ekki einsdæmi. Ísland nýtur stuðnings tólf ríkja, sem hafa einnig staðið í deilum vegna vörumerkjaskráningar á nafninu sínu.

„Þetta eru sérstaklega Jamaíka og Sviss, sem Ísland starfar með á vettvangi Alþjóðahugverkastofnunarinnar,“ segir Margrét. Þar hafi fyrirtæki lent í vandræðum vegna skráningar á vörumerkjum landa sinna.

En íslensk fyrirtæki hafa líka lent á vegg annars staðar en í ESB. Í Bandaríkjunum er orðið Icelandic til dæmis skrásett vörumerki.

Fordæmisgefandi mál

Málið er því talið fordæmisgefandi fyrir alþjóðlegan vörumerkjarétt og til marks um það er yfirdómurinn fjölskipaður. Níu dómarar dæma málið í stað þriggja eins og vant er. Af þúsundum mála á ári eru aðeins örfá dæmd fyrir fjölskipuðum dómi.

Ekki er búist við niðurstöðu í málinu fyrr en í byrjun næsta árs. Og jafnvel þá er ekki víst að því sé lokið. Uni málsaðilar ekki niðurstöðunni gæti það nefnilega endað hjá æðsta dómstóli ESB, Evrópudómstólnum.