Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Karl III orðinn konungur

epa09942119 Britain's Prince Charles arrives at Canada House in London, Britain, 12 May 2022. The Prince of Wales and The Duchess of Cornwall will visit Canada from 17 to 19 May 2022.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: Neil Hall - EPA
Karl, sonur Elísabetar drottningar, varð konungur við fráfall móður sinnar. Í tilkynningu frá konungsfjölskyldunni um andlát drottningar í dag er vísað til hans sem konungs og sagt að hann og kona hans verði í Balmoral í kvöld en snúi aftur til Lundúna á morgun. Karl heldur nafni sínu og verður Karl III. Forverar hans á konungsstóli með sama nafni voru báðir við völd á 17. öld.

„Andlát ástkærrar móður minnar, hennar hátignar drottningarinnar, er stund mikillar sorgar fyrir mig og alla fjölskyldu mína,“ segir konungur í yfirlýsingu sem breska hirðin birti skömmu eftir að andlát drottningar var tilkynnt. „Við syrgjum innilega fráfall kærs þjóðhöfðingja og ástkærrar móður.“ Karl segist viss um að breska þjóðin, samveldið og fólk um allan heim finni til mikils missis. „Á þessari sorgarstund og breytingaskeiði finn ég og fjölskylda mín huggun í þeirri vissu að drottningin naut mikillar virðingar og væntumþykjum víða um heim.“

Karl fæddist 14. nóvember 1948. Hann er sonur Elísabetar og Filippusar drottningarmanns. Karl var krýndur prins af Wales og þar með ríkisarfi 1969. Hann er sá ríkisarfi í sögu Bretlands sem hefur gegnt því embætti lengst áður en forveri hans fellur frá.

Karl hefur látið sig ýmis málefni varða, svo sem umhverfismál og varðveislu sögulegra bygginga. Hann tók að sér margvísleg skyldustörf Elísabetar drottningar síðustu misseri vegna versnandi heilsu hennar. 

Nýi konungurinn hefur látið sig margvísleg góðgerðamál varða og safnað miklu fé þeim til styrktar. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir suma styrkina sem góðgerðastofnun hans hefur þegið. 

Fyrst var ekki ljóst hvaða heiti Karl myndi velja sér sem konungur. Það var staðfest á sjöunda tímanum að íslenskum tíma að hann héldi nafni sínu og yrði Karl III. Fyrri konungar sem hétu Karl voru af Stuart ætt á 17. öld, annar var afhöfðaður eftir enska borgarastríðið. Því hafði einnig verið haldið fram að Karl gæti valið sér nafnið Georg, í virðingarskyni við afa sinn, og yrði þá Georg VII.

Fréttin var uppfærð 18:35 með nafni nýs konungs.