Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skaflinn í Esjunni heldur líklega í ár

07.09.2022 - 13:07
Hlíðahverfi í Reykjavík með Esjuna í bakgrunni.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni hverfur að öllum líkindum ekki í ár, segir veðurfræðingur. Skaflinn hefur verið óformlegur mælikvarði á tíðarfar á suðvesturhorni landsins síðan á 19. öld hið minnsta.

Skaflinn hefur ekki horfið síðan árið 2019 en þá hvarf hann í fyrsta sinn í ein sjö ár. Skaflinn er í Kistufelli, hægra megin í Esjunni, og sést vel frá höfuðborginni.

Allt frá því á 19. öld hefur hann verið notaður til að leggja mat á tíðarfar sumarsins sem leið. Árin 1847-1928 héldu fannir í suðurhlíðum Esju en árið 1929 hvarf skaflinn í fyrsta sinn frá því mælingar hófust. Árin 1929-1964 hvarf skaflinn alls nítján sinnum, oftast á fjórða áratugnum, en árið 1965 hófst 33 ára tímabil þar sem fannir héldu.

Árið 1998 hvarf skaflinn en fannir héldu næstu tvö ár þar á eftir. Skaflinn hvarf svo öll sumur frá 2001-2010, hélt árið 2011 en hvarf árið eftir. Árið 2013 hélt skaflinn og gerði það allt þar til árið 2019 þegar hann hvarf síðast.

Skaflinn hverfur yfirleitt um mánaðamótin september október og ef hann hverfur, þá þykir sumarið á undan hafa verið sérstaklega gott. Íbúar á suðvesturhorni landsins hafa reyndar ekki fengið að njóta mikillar veðurblíðu þetta sumarið, einkar kalt hefur verið í veðri þó síðustu dagar hafi verið ágætir. Það þykir því hæpið að skaflinn hverfi í ár.

Árni Sigurðsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að sumur þurfi að vera ansi hlý til þess að skaflinn hverfi. Skaflinn sé stærri núna en hann var í fyrra og úr því hann hvarf ekki þá þykir ólíklegt að það gerist í ár. Árni segir að mánaðamótin næstu séu vendipunkturinn, þar sem vanalega fer að grána í Esjunni uppúr októberbyrjun og þá útséð um hvort skaflinn hverfi.