Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Íslenskunni ekki ógnað þrátt fyrir ensk knæpunöfn

07.09.2022 - 21:00
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þótt ensk nöfn á veitingastöðum og krám virðist síalgengari er móðurmáli Íslendinga ekki ógnað að mati íslenskufræðings. Annað á hins vegar við um matseðla og annan texta.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, segir að jafnvel þótt mikið sé um ensk nöfn á veitingastöðum og knæpum þurfi það ekki að þýða það hafi aukist nokkuð. 

„Það er náttúrulega mjög langt síðan þetta byrjaði. Um aldamótin 1900 og snemma á tuttugustu öld voru hér verslanir og stórhýsi sem hétu erlendum borgarnöfnum. London, Edinborg og Glasgow og Liverpool og svo framvegis. Svo sum dönskum eins og Thompsens magasín og annað slíkt. Hins vegar náttúrulega hefur veitingastöðum fjölgað mikið upp á síðkastið og erlendum heitum líka. En það eru líka margir sem heita íslenskum nöfnum.“

Mun verði að gera á virkri málnotkun annars vegar og þegar orð eru notuð sem tákn hins vegar. 

„Auðvitað eigum við að halda íslenskunni á lofti alls staðar en fyrst og fremst í því sem hefur merkingu fyrir okkur og þar sem við þurfum að koma einhverjum skilaboðum á framfæri.“ 

Þar á meðal séu matseðlar. Víða eru matseðlar sem stillt er upp fyrir framan veitingastaði eingöngu á ensku, þá kannski einkum í miðbæ Reykjavíkur. 

„Það má auðvitað segja að við erum stödd hér í miðri Reykjavík og megnið af því fólki sem hér fer um um þessar mundir er væntanlega ekki Íslendingar. En það breytir því ekki að auðvitað ætti svona að vera á íslensku líka. Ég geri enga athugasemd við að enska sé notuð, það er bara sjálfsögð þjónusta við fólk. En íslenskan ætti að fylgja alveg skilyrðislaust.“