Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Trump fær að skipa sérstakan matsmann vegna húsleitar

epa10158565 Former President Donald J. Trump speaks at the Mohegan Sun Arena in Wilkes-Barre, Pennsylvania, USA, 03 September 2022. This is Trump’s first public appearance since the 08 August raid of Mar-a-Lago in Palm Beach, Florida.  EPA-EFE/TRACIE VAN AUKEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur ákveðið að verða við beiðni Donalds Trumps, fyrrverandi forseta, um að hann fái að skipa sérstakan óháðan matsmann til þess að yfirfara gögn sem fundust við húsleit á heimili hans.

Sigur fyrir Trump sem mun tefja framvindu rannsóknar

Húsleitin var gerð vegna gruns um að Trump hefði í óleyfi geymt leyniskjöl Hvíta hússins inni á heimilinu. Yfirferð matmannsins mun að öllum líkindum tefja rannsókn málsins talsvert.

Alríkisdómarinn, Aileen Cannon, var skipuð í embættið af Trump í stjórnartíð hans. Hún hefur einnig ákveðið að dómsmálaráðuneytið fái ekki aðgang að gögnum málsins, á meðan matsmaðurinn hefur þau til skoðunar. Ákvörðun hennar telst ákveðinn sigur fyrir Trump, sem hefur ekki farið leynt með óánægju sína á rannsókninni.

Í forgangi að rannsaka skjöl sem gætu varðað þjóðaröryggi

Þó dómsmálaráðuneytið verði úti í kuldanum tímabundið, gerði dómarinn þó undanþágu fyrir embætti sem hefur yfirumsjón með leynilegum upplýsingum sem þykja varða þjóðaröryggi. Þau hafa áfram aðgang að gögnunum og hafa það hlutverk að meta hvort varsla gagnanna á heimili forsetans fyrrverandi hafi ógnað öryggi bandarísku þjóðarinnar.

Trump, lögfræðiteymi hans og dómsmálaráðuneytið hafa fram á föstudag til þess að leggja til hver verði skipaður í embætti sérstaks matsmanns í málinu, en yfirleitt eru það lögfræðingar.

Dómsmálaráðuneytið er talið líklegt til að áfrýja ákvörðun dómarans, sem myndi þó þýða enn frekari tafir í rannsókn málsins.