Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Raunveruleiki leiðinlegasta fólks sem þú þekkir

Mynd: Ketchup creative / Stöð 2

Raunveruleiki leiðinlegasta fólks sem þú þekkir

06.09.2022 - 09:11

Höfundar

„LXS verður því miður ekki meira en einhvers konar heimildarmynd um frekar þurran vinahóp, sem eru vonbrigði því ég er viss um að það sé skemmtilegra að hanga með öllum þessum konum um leið og slökkt er á myndavélunum,“ segir Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1, sem rýnir í raunveruleikaþættina LXS.

Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir skrifar:

LXS eru nýir sjónvarpsþættir sem sýndir eru á stöð 2, raunveruleikaþættir sem fylgja eftir lífi áhrifavaldanna Sunnevu Einars, Birgittu Lífar, Ástrósar Trausta, Magneu Bjargar og Ínu Maríu. Vinkvennahópurinn er myndaður á þeim forsendum að konurnar sem hann skipa eru fallegar og vinsælar á samfélagsmiðlum, Birgitta líf segir frá því í þáttunum, hvernig hún hóaði hópnum saman þegar henni bauðst að bjóða nokkrum konum með sér í lúxusferð. L-X-S, lúxus, og kannski líka excess. 

Kostuð afþreying

Starf áhrifavaldsins er flestum vel kunnugt, að græða peninga á því að hafa marga fylgjendur á samfélagsmiðlum og fá greitt fyrir að kynna vörur eða vörumerki í gegnum þessa miðla; því fleiri fylgjendur, því meiri peningar. Öll umgjörð og efni LXS-þáttanna ber þess raunar merki að vera einhvers konar auglýsing. Framleiðendur þáttanna eru Ketchup Creative, fyrsta auglýsingastofa á Íslandi, segir á heimasíðu fyrirtækisins, sem sérhæfir sig í að búa hreint ekki til auglýsingar, heldur svokallaða branded entertainment eða kostaða afþreyingu. Markmiðið, segir enn fremur á heimasíðunni, er að áhorfandinn horfi á auglýsinguna af því hann vill það, ekki því hann neyðist til þess. Þessi kostaða afþreying gerir að verkum að „áhorfendur horfa á efnið með sama hugarfari og þeir myndu horfa á bíómynd eða sjónvarpsþætti.“

Tilvist Ketchup Creative er því viðbragð við ógnvænlegri þróun fyrir auglýsendur: fólk nennir ekki lengur að horfa á auglýsingar, það spólar yfir þær, það skiptir um stöð, það slekkur á athyglinni. Sé auglýsingin hins vegar í formi TikToks þar sem vinsælasti tiktokari landsins, Lilcurly, dansar með kókdós í forgrunni rammans, þá verður til lausn á þessu vandamáli auglýsenda. Það er að segja: áhorfendur horfa á auglýsinguna, grunlausir, óvarðir, því þeir átta sig ekki á að þeir séu að horfa á kókauglýsingu. Nýr dagur, nýtt tækifæri til að selja þér eitthvað.

Lýðurinn vill ekki auglýsingar, en hann er til í „content“: Tiktok-myndskeið er content, instagram-póstur er content, og já, raunveruleikaþættirnir LXS bera þess merki að vera hugsaðir sem content. Í þáttunum fylgjumst við með stelpunum gera venjulega hluti sem ríkar íslenskar stelpur gera, þær fara út að borða, í flúðasiglingu, á fjórhjól, í skíðaferð, elda vodkapasta eftir uppskrift frá Gigi Hadid.

Hinn dularfulli Húgó

Birgitta Líf nýtir hvert tækifæri til að kynna okkur skemmtistaðinn sem hún rekur og fjölskyldufyrirtækið WorldClass, á meðan Sunneva Einars sýnir okkur nýju skartgripalínuna sína. Á einum tímapunkti breytast þessar sífelldu kynningar sem mynda þáttinn í einhvers konar meta-auglýsinga-martröð, t.d. Í atriði þegar LXS-stelpurnar ræða saman um tónlistarmanninn Húgó.

Húgó þessi er, fyrir þá sem ekki vita, eins konar tilbúin poppstjarna, líka úr smiðju Ketchup Creative, búinn til á stofu, svolítið eins og Stuðboltastelpurnar. Sugar, spice, everything nice. Samkvæmt fréttum Vísis (sem er einmitt í eigu Sýnar, sem rekur Stöð 2, en Vísir virðist vera eini fréttamiðillinn sem nennir að fjalla um tónlistarmanninn) er hann einn vinsælasti tónlistarmaður landsins, tilvitnun: „með samning við Sony og með meira en milljón spilanir.”

Birgitta Líf í LXS er umboðskona Húgós, og í samtali kvennanna kemur fram að Húgó hafi verið valinn nýliði ársins á Hlustendaverðlaunum FM957 (útvarpsstöðvar sem einnig er hluti af Sýn). Samtalið er eins og kostuð kynning fyrir tónlistarmanninn, fyrir Ketchup creative. Ketchup creative kynnir eigin verkefni, í eigin þætti.

Ég vil ekki hljóma eins og einhver brjáluð samsæriskenningarkona, en þetta tengist allt saman krakkar, ég þekki engan sem hlustar á Húgó, hann er tilbúningur, hann er ekki tónlistarmaður heldur branded entertainment.

Því lágkúrulegra því betra

Ég veit, ég er farin að hljóma eins og listaháskólanemi sem var að átta sig á hvað kapítalismi er, en ekki misskilja mig; vonbrigði mín með þættina koma ekki af einhverjum háum stalli barnslegrar ímyndar um heilagleika listarinnar, eða eitthvað svoleiðis. Ég elska raunveruleikaþætti, því lágkúrulegri sem þeir eru, því betra. Ég elska að fylgjast með karlmönnum svíkja konur sem eru betri en þeir í Love Island, ég elska að horfa á konurnar í The Real Housewives of Beverly Hills baktala hver aðra. Ég elska að horfa á karlmenn grenja úr sér augun yfir því að hafa ekki fengið rós frá konu sem þeir hafa þekkt í minna en þrjá daga. 

Í kynningarviðtali LXS-stelpnanna við Vísi segir Birgitta Líf að þættirnir séu „mest alvöru raunveruleikaþættir sem hafa verið gerðir, á íslandi, ekkert leikið, ekkert skriftað, ekkert tekið aftur.”

Raunveruleikasjónvarp sem væri jafn nálægt sannleikanum og Birgitta Líf lýsir hljómar meira eins og heimildarmynd og ef ég vildi horfa á heimildarmynd og komast nær sannleikanum myndi ég einfaldlega fara á heimildarmyndahátíðina Skjaldborg og horfa á mynd um einhvern hundrað ára gamlan vitavörð.

Meðvitaðar um sig og velja hvaða ímynd er sett fram

Nei, raunveruleikasjónvarp sem þættirnir taka fyrirmynd sína frá, þættir á borð við The Real Housewives of Beverly Hills, er uppspuni frá rótum og LXS er það auðvitað líka. Það sem persónurnar segja í þáttunum er auðvitað ekki það sem þær myndu segja væri slökkt á vélunum, þær eru meðvitaðar um sig, þær velja hvaða ímynd þær setja fram, hverju þær deila með þjóðinni.

Í viðtalinu í Vísi tala LXS-stelpurnar um að þær séu góðar fyrirmyndir, í þáttunum sé skyggnst inn í líf framakvenna sem dætur þeirra sjálfra gætu verið stoltar af. 

Verra að reyna að vera góðar fyrirmyndir

Þær segja þetta sem eins konar svar við gagnrýni kommentakerfanna um að þær séu ekki nógu góðar fyrirmyndir fyrir ungviðið, eða eitthvað svoleiðis. En málið er, að þegar kemur að raunveruleikasjónvarpi er einhvern veginn verra að þær séu að reyna að vera góðar fyrirmyndir, en ef þær væru bara vondar manneskjur. Ég hefði notið þáttanna betur ef Birgitta Líf hefði farið í reiðikast og sparkað í litla hundinn sinn þegar hún komst að því að lúxusþyrlan sem hún pantaði kæmist ekki upp í fjall til skvísuhópsins í fyrsta þætti. Hún hefði öskrað: „Veistu ekki hver ég er?” á einhvern undirlaunaðan aðstoðarmann um leið og hún hefði ýtt myndavélinni frá sér og strunsað í burtu.

Eða ef Magnea myndi í einstaklingsviðtölunum kalla Ínu Maríu heimska mellu fyrir að hafa hellt áfengum drykk yfir hausinn á henni í sundlauginni í öðrum þætti. Sunneva Einars færi í matarboð til tengdaföður síns, Bjarna Ben, þar sem kæmi í ljós að B. eldri væri ekki par sáttur við starfssvið tengdadótturinnar, hann myndi jafnvel kalla hana druslu eftir einum of mörg hvítvínsglös með humrinum. Benni litli og Sunneva yfirgæfu veisluna með tárin í augunum.

Missa aldrei stjórn á sér

En nei, við sjáum aldrei svo hrá móment. LXS verður því miður ekki meira en einhvers konar heimildarmynd um frekar þurran vinahóp, sem eru vonbrigði því ég er viss um að það sé skemmtilegra að hanga með öllum þessum konum um leið og slökkt er á myndavélunum. Ég meina, Birgitta Líf bókstaflega á skemmtistað og Ástrós Trausta talar fimm tungumál og flutti ein til Frakklands 16 ára gömul, en persónurnar sem þær kjósa að sýna okkur í þættinum eru álíka þurrar og samræðurnar í babyshower hjá grunnskólavinkonu manns sem á frekar stífar vinkonur, eða kurteisisspjall milli samstarfsfélaga í 9.20 pásunni á mánudegi á einhverjum ríkisreknum vinnustað.

Frásagnarmátinn þegar þær segja okkur frá skíðaferð á Sauðarkróki minnir á dagbókarfærslu tíu ára gamallar stúlku:

Kæra dagbók, í dag fór ég í bíó með Sunnevu, svo kom Ástrós að hitta okkur, svo fór ég heim, svo borðaði ég kvöldmat, svo lærði ég heima, svo fór ég að sofa.

Ímynd þeirra er svo vel undir stjórn og sá hluti lífs þeirra sem þær velja að sýna svo lítill að áhorfendur ná ekki að tengjast þeim. Raunveruleikinn, lífið með stóru l-i, er fullt af óvæntum atburðum, tilfinningum, messi og rugli, en ekki LXS. Þar sjáum við bara vel efnaðar og fallegar stelpur, sem missa aldrei stjórn á sér og eru alltaf meðvitaðar um ímyndina. Þær eru einfaldlega aðeins of búnar með master í alþjóðaviðskiptum til að fara að skandalisera í sjónvörpum landsmanna.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Gripnir við að gera hluti sem þeir vildu aldrei sýna

Sjónvarp

Akkúrat passlega mikið „beef“ fyrir fólk á ketó