Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Íslandsbankaskýrsla tefst enn

06.09.2022 - 12:21
Höfuðstöðvar Íslandsbanka
 Mynd: RÚV
Flest bendir til þess að skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verði ekki send forseta Alþingis fyrr en eftir miðjan mánuð. Ríkisendurskoðandi segir skýrsluskrif á lokametrunum en töluverð vinna þó að þeim loknum - eins og rýni og umsagnarferli.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fór þess á leit við Ríkisendurskoðun í byrjun apríl að stofnunin gerði úttekt á hvort sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Forsaga málsins er að uppi varð fótur og fit eftir að kaupendalistinn var birtur, þar sem mætt voru á sjónarsviðið á ný mörg þekkt nöfn úr hruninu. Mótmælt var ítrekað á Austurvelli og stjórnarandstaðan fór fram á að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis en svo var ekki gert. 

Í fyrstu var búist við skýrslunni í júní og forsætisráðherra greindi frá því þegar fundum Alþingis var frestað 16. júní að þing yrði kallað saman til framhaldsfundar þegar skýrslan myndi berast þinginu. 

Alþingi sett á þriðjudag

Alþingi verður sett næstkomandi þriðjudag og daginn eftir flytur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stefnuræðu sína.

Skýrslan er ekki tilbúin en Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi sagði í samtali við fréttastofu að skýrsluskrif væru á lokametrunum. Að því loknu fari skýrslan í rýni og umsagnarferli og verði því ekki send forseta Alþingis fyrr en að því loknu.

Umsagnarferli tekur að sögn Guðmundar Björgvins mislangan tíma. Hann sagði í samtali við fréttastofu í byrjun ágúst að venjulega tæki sambærileg stjórnsýsluúttekt 6 til 10 mánuði en vegna sérstakra aðstæðna hefði stofnunin viljað vinna þessa úttekt mun hraðar án þess þó að fórna gæðum og vönduðum vinnubrögðum. 

Miðað við þetta verður að teljast líklegt að skýrslan verði ekki afhent fyrr en síðar í mánuðinum jafnvel ekki fyrr en eftir miðjan mánuð, þremur mánuðum eftir upphaflega áætlun, og þá verða þingstörf komin á fulla ferð.