Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bera litla ábyrgð en þurfa að þola mestu afleiðingarnar

06.09.2022 - 11:52
epa10161645 Akinwumi A. Adesina, President of the African Development Bank, at the Africa Adaptation Summit in Rotterdam, The Netherlands, 05 September 2022. During this summit, African government leaders will discuss the importance of structural financing for climate adaptation in Africa.  EPA-EFE/JEROEN JUMELET
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Leiðtogar Afríkuríkja kölluðu eftir því í gærkvöld að auðugari ríki heims fjármagni verkefni til að aðstoða hin fátækari við að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Til stendur að afla 25 milljarða bandaríkjadala til að fjármagna þriggja ára verkefni til að styrkja landbúnað og innviðauppbyggingu.

Einungis einn evrópskur leiðtogi sótti ráðstefnu í Rotterdam í gær þar sem til umræðu var hvernig Afríkuríki geti búið sig undir nýjan veruleika. Hins vegar mættu allnokkrir afrískir forsetar og forsætisráðherrar auk bankastjóra Þróunarbanka Afríku.

Bankastjórinn, Akinwumi Adesina, sagði við ráðstefnugesti að Afríka beri ekki ábyrgð á nema þremur prósentum alls útblásturs gróðurhúsalofttegunda. „En afleiðingarnar eru verri í Afríku en víðast hvar annars staðar,“ sagði Adesina.

Macky Sall, forseti Senegal, sagðist óánægður með hversu fáir leiðtogar ríku landanna hafi þegið boðið. „Ég get ekki annað en verið nokkuð beiskur yfir fjarveru leiðtoga hinna iðnvæddu landa,“ hefur Reuters eftir Sall.

Hann sagðist hafa haldið að ef Afríkuleiðtogar kæmu til Rotterdam til að funda yrði auðveldara fyrir evrópska leiðtoga og aðra að mæta á fundinn enda beri ríki þeirra mun meiri ábyrgð á loftslagsvandanum.

Ríki heims sammældust um það á COP26-loftslagsráðstefnunni í Glasgow í Skotlandi í fyrra að tvöfalda framlög til verkefna sem snúa að aðlögun þróunarríkja að breyttu loftslagi. Framlögin eiga því að verða um fjörutíu milljarðar dala samanlagt. 

Leiðtogar ríkja heimsins mæta aftur til loftslagsfundar á COP27 í Sharm El Sheikh í Egyptalandi eftir tvo mánuði. Búist er við að fjármögnun loftslagsaðgerða og -aðlögunar verði þar ofarlega á baugi.

Þórgnýr Einar Albertsson