Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sauðfjárbændur fækka fé eða hætta búskap

05.09.2022 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Hátt áburðarverð og aukinn kostnaður við búrekstur verður til þess að margir sauðfjárbændur fækka fé sínu nú í sláturtíðinni eða hætta búskap. Fyrstu göngur voru um helgina og lömb koma misvel af fjalli. 

Báru engan tilbúinn áburð á túnin

Dæmi voru um að sauðfjárbændur bæru engan innfluttan áburð á tún sín í vor vegna mikillar hækkunar á áburðarverði. Síðan kæmi í ljós í sumar hve sprettan yrði og hvað þeir fengju mikið hey og það réði því hversu mörgum lömbum þeir slátruðu í haust.

Bændur setji minna á víða og aðrir hætti 

Trausti Hjálmarsson, formaður Búgreinasambands sauðfjárbænda, segir að fjöldi bænda hafi fengið meira af heyi en þeir gerðu ráð fyrir, en aðrir minna. „Þannig að mér sýnist og heyrist á bændum að það verði þessi fækkun, að menn setji minna á víða og aðrir hætti.“

Vonast til að menn endurhugsi stöðuna

Hann vonast þó til að góð spretta í sumar og sú leiðrétting sem þó hafi náðst á afurðaverði, verði til þess að bændur endurhugsi stöðuna. „Við sjáum það ekki fyrr en sláturtölur og ásetningur liggur fyrir seinna í haust. En að öllum líkindum verður fækkun á ásettu fé í haust.“

Líklega misjafnari lömb nú en í fyrra

Fyrstu göngur voru um helgina og eftir samtöl við bændur er ljóst að lömb koma misvel af fjalli eftir landshlutum. Trausti er að smala á Biskupstungnaafrétti í dag og líst vel á. „Það sem við erum búin að sjá hérna á afréttinum hjá okkur lítur mjög vel út. En ég hef heyrt misjafnar sögur í kringum landið og lömb verði sennilega misjafnari núna en í fyrra. Sem var auðvitað algert metár hjá okkur í fallþunga.“