Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mikilvægt að geta skipað í embætti án auglýsingar

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlar að skoða hvernig ráðherrar hafa skipað embættismenn án auglýsingar. Þingmaður framsóknar segir mikilvægt að ráðherrar hafi lagalega heimild til að færa embættismenn til í starfi.

Nefndin hefur kallað eftir gögnum, meðal annars frá forsætisráðuneytinu, um hvaða háttur hafi verið á um skipun embættismanna síðustu ár. Ástæðan er ákvörðun menningar- og viðskiptaráðherra um að færa safnstjóra Listasafns Íslands yfir í embætti þjóðminjavarðar. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar segir of mörg dæmi um slíkt á undanförnum misserum.

„Það er sú tilfinning sem við höfum, já. Þess vegna er gott að fá gögnin og sjá hvernig þetta hefur verið í samanburði við einhver önnur ár. Ef það er þannig að meginreglan um auglýsingu er eitthvað að gefa eftir þá verður þingið að taka á því.“

Þú vildir að frumkvæðisathugun yrði gerð, er þetta fyrsta skrefið í átt að því eða hvað?

„Ég tel svo vera að við séum að undirbúa það að gera frumkvæðisathugun.“ 

Nefndin skoðar þá hvernig farið hefur verið að við skipanir embættismanna eins langt aftur og gögn leyfa. Eining var innan nefndarinnar um að kalla eftir upplýsingum. 

„Mér finnst bara mjög eðlilegt að við fáum þessi gögn í hendurnar. Sérstaklega í kjölfar mikillar umræðu í samfélaginu og sömuleiðis er þetta hlutverk nefndarinnar,“ segir Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir þingmaður framsóknar og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hún telur menningar- og viðskiptaráðherra hafa farið rétt að við skipun þjóðminjavarðar. 

„Ég bara styð þá ákvörðun sem ráðherra tók. Það eru mjög skiptar skoðanir um þetta einstaka mál og hún hefur tekið þeirri gagnrýni og sagst ætla að taka hana til greina og hafa það í huga að auglýsa frekar héðan í frá.“ 

Ráðherra sótti heimildina til að skipa nýjan þjóðminjavörð án auglýsingar til þrítugustu og sjöttu greinar starfsmannalaga. Lilja telur að ekki eigi að fella greinina úr gildi.  

„Ég tel gott að hafa þá heimild að það sé hægt að færa til embættismenn í starfi. Út af ýmsum ástæðum. En það á ekki að vera að tilefnislausu.“