„Ég var bara ekki sátt“

Mynd: Aðsend / Aðsend

„Ég var bara ekki sátt“

05.09.2022 - 09:41

Höfundar

Hrafnhildur Sigmarsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, er ósátt við hvernig hatursfullri orðræðu er leyft að viðgangast á netinu. Hún hefur tekið málið í eigin hendur og birti nýlega grein þar sem hún fór ofan í saumana á andfélagslegri hegðun og hvernig megi sporna við birtingarmyndum hennar á netinu.

Hrafnhildur sendi frá sér grein í fyrra um siðferðisskort og siðleysi í samskiptum. Í athugasemd undir greininni voru hatursfull ummæli í hennar garð látin falla og hún kölluð kolklikkuð kunta. Hún ákvað að taka hatursorðræðunni ekki þegjandi og svaraði þeim með annarri grein. „Ég er tilbúin í skoðanaskipti og málefnalega umræðu,“ segir Hrafnhildur. Hún ræddi við Samfélagið á Rás 1.  

„Ég er tilbúin í skoðanaskipti og málefnalega umræðu“ 

Hrafnhildur segir viðbrögðin við grein sinni bæði hafa komið sér á óvart og ekki. „Þegar ég skrifa þá skrifa ég alltaf fræðslugreinar út frá samfélagsrýni. Þannig að tilgangur greinaskrifa minna er alltaf að fræða,“ segir hún. „Ég átti alveg von á einhverju en þegar einhver segir eitthvað svona gildishlaðið og ljótt þá vil ég alltaf fá rökstuðning.“ 

Þessari athugasemd, frá manni að nafni Einar, fylgdi enginn rökstuðningur. „Þannig að þetta var bara hatursorðræða beind að mér og ég var bara ekki sátt.“ Þar af leiðandi fór Hrafnhildur að velta fyrir sér orsökum og uppruna þessa talsmáta á samskiptamiðlum. Hún bætir við að oftar en ekki séu það þeir sem vekja athygli á óréttlæti og ranglæti samfélaga sem verða fyrir barðinu á þessari orðræðu.  

„Ég er tilbúin í skoðanaskipti og málefnalega umræðu,“ segir Hrafnhildur. „En þegar ég er kölluð kolklikkuð kunta og ælukallinn látinn fylgja með og án alls frekari rökstuðnings, þá að sjálfsögðu set ég spurningarmerki við.“ 

Hatursorðræða andfélagsleg í eðli sínu 

Hrafnhildur hefur gaman af að að rýna í samfélagið, hegðun og samþykktar venjur út frá mann- og félagsfræði. Henni þykir orðræðugreining einnig verulega áhugaverð og skoðar hvers konar talsmáti þykir viðurkenndur og af hverju orðræða geti þróast í ákveðnar áttir. „Þarna held ég að varðandi andfélagsleg ummæli á netinu sé einhvers konar blanda af eitruðum hugsunarhætti, mannkostaskorti sem er algjörlega andfélagslegur í eðli sínu og síðan bara svolítlu kvenhatri.“ 

Þó það geti vafist fyrir fólki hvaða siðvenjur skuli í hávegum hafðar á netinu segir Hrafnhildur að það séu sömu samskiptareglur og mannkynið hefur þróað með sér í þúsundir ára. „Það gerir okkur kleift að eiga í tiltölulega sómasamlegum og siðlegum samskiptum daglega,“ segir hún. „Þess vegna skil ég ekki af hverju við beitum fyrir okkur einhverju kunnáttu- og þekkingarleysi bara af því að við erum á bak við tölvu.“ 

Skeytingaleysi, hroki og fjandsemi í garð annarra 

Andfélagsleg hegðun segir Hrafnhildur að einkennist af viðvarandi tillitsleysi sem hunsar bæði réttindi og tilfinningar annarra. Skeytingarleysið birtist í ákafa og tortryggni í skoðanaskiptum, hroka, ofmati á eigin ágæti og óhóflegri skoðanagleði. „Hegðun þessa fólk einkennist oft af hvatvísi og skipulagsleysi.“ Hrafnhildur segir hegðunina jafnframt geta verið ógnandi og fjandsamlega í garð annarra. Þeir sem þjást af andfélagslegri hegðun hafi jafnframt lélega tilfinningastjórn og óhóflegur pirringur þeirra virðist stafa af lágum streituþröskuldi.  

„Við getum öll verið sek um einhverja ömurlega hegðun gagnvart öðru fólki,“ segir Hrafnhildur. Það er þó ekki það sama og umrædd andfélagsleg hegðun heldur frekar viðnám við aðstæðum. „Og svo bara af því að við erum sjálfrýnin og með siðferðiskennd þá tökum við skref til baka og segjum, sorrí með mig, ég fór yfir línuna hérna.“ Þeir sem eru með andfélagslega persónuleikaröskun eru ófærir um að rýna í eigin hegðun með þessu móti. Þeir sem greinast með persónuleikaröskunina virðast eiga erfiðara með að viðhalda nánum samböndum en aðrir eða að takast á við breytingar og kröfur dagslegs lífs.  

Mikilvægt að sjúkdómsvæða ekki skíthælahátt 

Margir kannast við að hafa lesið dónalegar og meiðandi athugasemdir á netinu. „Þetta er staður þar sem andfélagsleg hegðun fær að blómstra, hún fær einhvern veginn að vera óáreitt.“ Þeir sem láta slík orð falla geta þjáðst af andfélagslegri hegðun en Hrafnhildur segir varasamt að gera ráð fyrir að persónuleikaröskun sé til staðar hjá þeim sem haga sér með hatursfullum hætti á netinu. „Ég tala líka um að það sé ofsalega mikilvægt að við séum ekki að sjúkdómsvæða skíthælahátt.“  

Það getur reynst erfitt að höfða til samvisku einstaklinga sem fara fram með hatursfullum hætti á netinu. „Það þýðir ofsalega lítið að höfða til mannkosta þessara einstaklinga af því að þeir eru bæði byggðir á brothættum grunni og eru ekkert megnugir í stórafrek á vettvngi iðrunar eða eftirsjár.“ 

Netið má ekki verða útundan  

Hrafnhildur segir mikilvægt að mæta ofbeldisfullri hegðun, á borð við hatursorðræðu á netinu, með skýrum mörkum og í raun með sama hætti og ofbeldi er mætt í raunheimum. „Ef Einar hefði mætt heim til mín og öskrað á mig: kolklikkuð kunta og ælt á stofugólfið heima hjá mér þá er rosalega auðséð hvað ég hefði gert. Ég hefði hringt á lögregluna og borgarlækni.“ Orð umrædds Einars vísa til samhljóðandi athugasemdar sem hann skildi eftir fyrir neðan grein Hrafnhildar um siðaskort og siðleysi í samskiptum, sem birtist á Kjarnanum í fyrra.  

Hún segir mikilvægt að fólk standi með sjálfu sér og láti ekki allt yfir sig ganga, hvorki í daglegu lífi né í samskiptum á netinu. „Ég tek málefnalegri gagnrýni allan daginn en ekki svona ummælum.“ Hún segir mikla vitundarvakningu í samfélaginu um þessar mundir varðandi ofbeldi, eðli þess og afleiðingar og netið megi ekki verða útundan í henni. „Internetið er bara eitt annað rými þar sem ofbeldi er. Það þarf að skoða, skilja, gagnrýnin hugsun. Þá hefst þetta allt saman,“ segir hún að lokum.  

Rætt var við Hrafnhildi Sigmarsdóttur í Samfélaginu á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilava RÚV.  

Tengdar fréttir

Sveitarfélög

Hatursorðræða meinsemd í samfélaginu

Stjórnmál

Skera upp herör gegn hatursorðræðu

Innlent

Margir haft samband og greint frá alvarlegu ofbeldi

Innlent

Biðlisti hjá Stígamótum þrefaldast á tveimur vikum