Góði leikarinn sem var svo vondi kallinn í alvörunni

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - RÚV
Ein skærasta og virtasta stjarna Bandaríkjanna er nú svo eitraður að hann getur hvergi verið, enginn vill vinna með honum og enginn trúir honum. Tugir hafa stigið fram og sakað Kevin Spacey um áreitni og ofbeldi í gegnum tíðina, þrjú hafa fallið frá áður en til málaferla kom, honum hefur verið gert að greiða óheyrilega háar fjárhæðir í bætur til Netflix vegna House of Cards og þetta virðist hvergi nærri hætt. Málin halda bara áfram að koma.

Þeir hafa allnokkrir fallið af stallinum í Hollywood eftir metoo-byltinguna þar. Harvey Weinstein, R. Kelly, Michael Jackson, Bill Cosby, Roman Polanski, Woody Allen, Bryan Singer, Luc Beson, Marilyn Manson… svo einhverjir séu nefndir, voru allir opinberaðir sem kynferðisbrotamenn og níðingar eftir að hafa fengið að áreita hina og þessa ítrekað í áraraðir. Sumir eru í fangelsi, aðrir misstu bara vinnuna og æruna. Og auðvitað er þessi listi ekki tæmandi. Heimskviður tóku fyrir mál stórstjörnunnar Kevin Spacey, en mál hans hefur verið kallað eitt stærsta og dramatískasta fallið í Hollywood.

„Maðurinn var gjörsamlega óstöðvandi í níunni. Það var ekki hægt að finna stærri leikara en Kevin Spacey á þessu tímabili,“ segir Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas, leikmyndahönnuður, framleiðandi og Hollywood-fréttaritari. Hún þekkir mál Spaceys út og inn. „Kevin Spacey, Brad Pitt, Nicolas Cage og fleiri voru bara það allra allra stærsta á þessum tíma. En Spacey þótti alltaf hafa mikinn gravítas, hann lék á sviði, búinn með Broadway og unnið verðlaun þar. Hann ferðaðist til London þar sem hann var listrænn stjórnandi í Old Vic.“

Úr 100 milljón dollurum í 30 milljónir

Kevin Spacey er nú metinn á 30 milljónir bandaríkjadala. Það er alveg mikið, en þó töluvert minna en hann var metinn á árið 2017 þegar virði hans, Net Worth, var metið á 100 milljónir dala. Hið títtnefnda Net Worth er í raun einfaldlega reiknað sem það sem viðkomandi á mínus það sem viðkomandi skuldar. Vefsíður eins og Celebrity Net Worth punktur kom taka saman opinber gögn sem tengjast viðkomandi stórstjörnu - hlutabréfaeign, fasteignir, bíla, báta, listaverk, einkaþotur og svo framvegis, plús laun. Auðvitað er þetta ekki nákvæmt, en gefur ágætismynd af velgengni viðkomandi stjörnu. a Samkvæmt heimasíðunni Celebrity Net Worth er kvikmyndaleikstjórinn George Lucas á toppnum, metinn á tíu milljarða bandaríkjadala. Tónlistarkonan Rihanna er í sjötta sæti, metin á 1,7 milljarða. Kollegi Kevins Spacey, Robert De Niro, í 46. sæti, metinn á fimm hundruð milljónir dala. Þannig að Spacey er einhvers staðar þarna nokkuð neðarlega með sínar 30 milljónir, þó að það sé nú dágóður slatti, tæpir fjórir og hálfur milljarður íslenskra króna. Og það er líka rík ástæða fyrir þessum 30 milljónum bandaríkjadala sem Kevin Spacey er metinn á. Hann var um tíma einn vinsælasti leikarinn í Hollywood og fall hans þar af leiðandi nokkuð hátt.

Mynd með færslu
 Mynd: Einkaeign
Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas hefur búið og starfað í Hollywood í 13 ár

Rasískur og ofbeldisfullur pabbi

Kevin Spacey Fowler fæddist í South Orange í New Jersey, 26. júlí 1959. Hann er 63 ára gamall. Mamma hans var ritari og pabbinn skrifstofumaður. Spacey hefur ekki talað mjög fallega um föður sinn, sakað hann um að hafa beitt sig líkamlegu ofbeldi og sömuleiðis kallað hann rasískan nasistadýrkanda. Einmitt það. 

Spacey fór í herskóla í Kaliforníu þegar hann var ungur að árum, en kynntist fyrst leiklistinni í framhaldsskóla þegar hann tók þátt í uppsetningu á Söngvaseiði. Þaðan lá leiðin í hinn virta Juilliard-leiklistarskóla í New York, hvar hann lærði leiklist og reyndi sömuleiðis fyrir sér sem uppistandari og grínisti. En það var leiklistin sem gekk upp hjá honum. Og vel það. Fékk Tony-verðlaun og allt. Hann sló strax í gegn á leiksviðinu, á Broadway og víðar. 

Tvenn Óskarsverðlaun og næstum EGOT

Fyrsta stóra hlutverkið hans á hvíta tjaldinu var 1989 í grínglæpamyndinni See No Evil, Hear No Evil, með Richard Prior og Gene Wilder. En það var með túlkun hans í stórmyndinni Glengarry Glen Ross, með stórmennum á borð við Al Pacino, Jack Lemmon, Alec Baldwin og Ed Harris, sem boltinn fór að rúlla fyrir alvöru. Hlustendur ættu líklega flestir að muna eftir Spacey úr snilldarlegu glæpafléttunni Usual Suspects - og ef svo er ekki þá mætti alveg endilega bæta úr því sem fyrst. Spacey lék þar halta sérvitringinn Verbal Kint, sem gat ekki hætt að tala. Hann hlaut Óskarinn fyrir frammistöðu, þarna 1995. Hlutverkið var sérstaklega skrifað með hann í huga. Þetta var stórt ár fyrir Spacey, því hann landaði líka lykilhlutverki í sálfræðitryllinum Seven. Kevin Spacey var þarna orðinn vörumerki - ólíkur öllum öðrum leikurum í Hollywood. 

Á eftir komu stórmyndir á borð við A Time to Kill, Midnight in the Garden of Good and Evil, LA Confidential, A Bugs Life og Óskarsverðlaunamyndin American Beauty (hann fékk líka annan Óskar fyrir það og stjörnu á Hollywood Walk of Fame). Það var árið 1999. Hann hélt áfram að raka inn verðlaunum og viðurkenningum, bæði fyrir leik á sviði og í bíómyndum. Samkvæmt vefsíðunni Internet Movie Database, IMDB, hefur hann unnið 59 verðlaun á ferlinum og verið tilnefndur 91 sinni. Dágóður slatti.  

„Hann er búinn að vinna Tony og Screen Actors Guild Award, hann hefur fengið Grammy tilnefningar, hann hefur unnið Emmy. Hann er bara Grammy frá því sem er kallað í bransanum, EGOT, sem er íkonísk stjarna sem hefur unnið þetta allt. Það er ekki stór hópur sem státar af þessu. Mjög fáir. Algjör elíta. Elíta innan elítunnar.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Spacey var lengi einn virtasti leikari Hollywood

Þó að stór hluti þessara medalía sé til kominn vegna leiks Spacey í kvikmyndum og leikritum, þá halaði hann líka slatta inn fyrir hlutverk sem hann landaði í ákveðnum sjónvarpsþætti, sem fór fyrst í loftið fyrir ellefu árum, 2011. Fyrsta sjónvarpsþætti sem streymisveitan Netflix framleiddi. Sjónvarpsþætti sem hefur nú verið tilnefndur til 56 Emmyverðlauna. House of Cards sló í gegn.  Korter í siðblindu Underwood-hjónin, Claire og Francis, leikin af Spacey og Robin Wright, unnu hug og hjörtu heimsbyggðarinnar og öll sem á horfðu elskuðu að hata þetta valdasjúka, eldklára og mölbrotna tvíeyki sem tók aldrei nokkra einustu ákvörðun án þess að hún væri þeim í hag, sama hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir aðra. Heimsyfirráð eða dauði. Spacey fór með hlutverk stjórnmálamannsins bandaríska, Franks Underwood, sem þráði völd og forsetaembættið meira en nokkuð annað, og braut fjórða vegginn reglulega til að segja áhorfendum frá þeim myrku og oft kómísku hugsunum sem bærðust með honum. 

Mjög góður leikari en bestur sem vondur kall

Kevin Spacey er mjög góður leikari og hann er eiginlega bestur sem vondur kall. Hvort sem það er raðmorðingi, spilltur stjórnmálamaður, ill engispretta, gangster eða perrapabbi. Hann lék meira að segja Doktor Evil í byrjunaratriði Austin Powers og Lex Luthor, erkióvin Superman. Þeir gerast ekki verri, vondukallarnir. Og Kevin Spacey er góður vondikall. En það er kannski góð ástæða fyrir því. 

Spacey sem Frank Underwood var aðalnúmer House of Cards í 65 þáttum, fimm seríum. Árin 2013 til 2017. Robin Wright lék hins vegar Claire Underwood í sex seríum, 73 þáttum. Það kom nefnilega smá babb í bátinn hjá Spacey þarna árið 2017. Þá var Kevin Spacey var opinberlega sakaður um kynferðisbrot. Eða á þann hátt að tekið var eftir, að minnsta kosti. Hann hafði brotið gegn 14 ára strák árið 1986. Spacey gaf út yfirlýsingu þar sem hann kenndi áfengisvanda sínum um, axlaði ekki ábyrgð og ætlaði bara að halda áfram með lífið. En það var búið að opna þarna flóðgátt og ásakanirnar og sögurnar komu á færibandi. Það var leikarinn Anthony Rapp steig þarna fram og sagði frá því þegar Spacey níddist kynferðislega á honum þegar hann var barn. Hann  hefur leikið í ýmsu, en nýlegasta hlutverk hans er í Star Track Discovery. Hann kemur af Broadway eins og Spacey, og sló þar í gegn sem barn. Rapp var 14 ára, Spacey var 28 ára. 

Króaði af 14 ára barn

Rapp hefur lýst því í viðtölum hvernig Spacey króaði hann af inni í svefnherbergi, tók hann í eins konar bóndabeygju og reyndi að fá hann með sér í rúmið. Hann byrgði þetta inni í 30 ár, en þegar metoo-bylgjan reið yfir Hollywood, með þolendur Harveys Weinsteins í broddi fylkingar, steig Rapp fram. Í miðjum endurnýjuðum frægðarstormi Spaceys vegna House of Cards. Og Rapp var svo sannarlega ekki sá eini sem Spacey hafði brotið á í gegnum tíðina. 

„Þegar Rapp stígur fram í október 2017, þá byrja að hrynja inn fleiri fleiri sögur frá mönnum sem voru kynferðislega áreittir af Spacey eða um að hann hafi hreinlega ráðist á fólk.“ 

Yfir 20 manns hafa stigið fram í Bandaríkjunum og sakað Spacey um áreitni eða ofbeldi. Sum málin hafa farið alla leið fyrir dómstólum, aðrir þolendur hafa dregið mál sín til baka af ótta við kastljósið. Mikið af ofbeldinu er sagt hafa átt sér stað þegar mennirnir voru ungir, alveg niður í fjórtán ára. Og síðan hafa aðrir 20 kvartað undan honum eftir störf hans í Old Vic í London. 

„Síðan fer þetta náttúrulega bara allt í skrúfuna hjá honum. Og eftir það hefur þetta verið svolítið þrautaganga fyrir hann. Eðlilega.“

Spacey reyndi af veikum mætti að ná stjórn á umræðunni í tengslum við frásögn Rapps. Hann sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist alltaf hafa dáðst að leikaranum unga, en einungis að leikhæfileikum hans. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa áreitt hann, það var svo langt síðan. Hann hefði verið fullur. Hann baðst afsökunar. Og svo kom hann út úr skápnum í leiðinni, sem féll í mjög grýttan jarðveg hjá hinsegin-samfélaginu í Hollywood og hann var meðal annars sakaður um að skýla sér á bak við regnbogann.  

Reitti hinsegin-samfélagið til reiði

„Samkynhneigða samfélagið hefur vitað lengi að hann sé hommi, hann hefur aldrei viljað koma út úr skápnum. EN hann nýtti tækifærið og kom út úr skápnum í miðju brimrótinu. Fólki fannst hann vera að hjálpa fordómafullu fólki, að setja vatn á myllu þess fólks um að það væri einhver bein lína á milli þess að vera pedófíll og samkynhneigður. Sem reitti mjög marga til reiði eina ferðina enn. Þannig að hann virðist ekki getað stigið til jarðar án þess að það séu einhver mistök og það verða allir brjálaðir.“

Á sama tíma og þetta var allt saman í gangi var tökum lokið á stórmynd Ridleys Scott, All the Money in the World, þar sem Spacey lék Jay Paul Getty. Scott tók þá fordæmalausu ákvörðun að taka senurnar upp aftur, klippa Spacey úr myndinni, og ráða stórleikarann Christopher Plummer sem Getty. Plummer hlaut svo reyndar Óskarstilnefningu fyrir hlutverkið, svo þetta hefur greinilega smellpassað. Spacey hafði þá áður verið orðaður við tilnefninguna fyrir hlutverkið.  

epa06297780 (FILE) - US actor Kevin Spacey watches a match during the Aegon Tennis Championships at the Queen's Club in London, Britain, 12 June 2013 (reissued 30 October 2017). In a statement posted on Twitter on 29 October 2017, Spacey has
 Mynd: EPA
Maður kemur í manns stað.

„Það er aldeilis búið að henda þér út með baðvatninu þegar kvikmynd er tilbúin og þú ert klipptur alveg úr henni. Og sama með Gore Vidal, í mynd sem heitir Gore. Frægur leikari og pólitíkusaviðmælandi í sexunni, en sú mynd er bara á hillunni hjá Netflix. Því Netflix er búið að brenna sig svo illa með House of Cards,“ segir Dröfn. 

Aðstandendur kvikmyndarinnar Bilionaire Boys Club tóku aðra stefnu, en Spacey fór þar með stórt hlutverk og tökum var lokið. Það var ákveðið að sýna myndina, til að heiðra öll þau hin sem komu að henni. Hann var jú ekki sá eini. Það gætu hafa verið mistök, myndin floppaði algjörlega. 

Netflix drap Frank Underwood

En hvað gerði Netflix? Jú. Frank Underwood, einn hataðasti og dáðasti stjórnmálamaður sjónvarpssögunnar, var skrifaður úr þáttunum. Drepinn.  Þeir klipptu síðustu seríuna úr 13 þáttum niður í 8. Og nú standa yfir önnur málaferli þar sem MRC, framleiðslufyrirtækið sem framleiðir House of Cards fyrir Netflix, krefur Spacey um 31 milljón bandaríkjadala í skaðabætur vegna brota hans. Bæði braut hann í launasamningnum ákvæði um að haga sér eins og manneskja, eins og Dröfn orðar það, og kynferðisáreita ekki starfsfólk í kring um sig. 

„Þeir virðast hafa náð að vinna það mál, því hann virðist hafa brotið kynferðisbrotareglurnar samkvæmt vinnusamningi. En mér skilst líka að hlutur af þessum 31ns milljón dollara skaðabótum eigi að renna til þess að það sé jafnvel umræða, hef ekki fengið það staðfest, að það eigi að klippa eins mikið af honum úr þessari seríu og hægt er. En ég veit ekki hvernig það fer með fyrstu þættina, því hann er jú um 90 prósent í hverjum einasta þætti, í hverri einustu seríu. En mér skilst að það sé kannski bara í þessari síðustu seríu sem er hálf lömuð útaf þessu öllu saman.“

Á þessum tímapunkti fór fólk að skera á böndin við Spacey. 

„Blaðafulltrúinn hans er búinn að yfirgefa hann og CIA, sem er risastór umboðsmannaskrifstofa hérna úti, ein sú stærsta, droppaði honum bara hérna úti eins og heitri kartöflu. Hann er örugglega ekki með teymi í kring um sig lengur. Hann er örugglega bara með lögfræðinga,“ segir Dröfn.  „En það heldur áfram, þetta er ekki búið. Því hann flytur þarna til Englands og er búinn að búa þar í 10 ár. Vildi endilega flytja þangað, fékk einhvern riddarakross frá Bretadrottningu fyrir þjónustu í leiklist og sviðslist, sem hann hefur enn ekki verið beðinn um að skila. En það eru ekki betri sögur af honum þar. Það eru komin þar fjögur kynferðisbrotamál í Bretlandi þar sem hann mætti fyrir dóm þar núna í ágúst. Þar sem hann þurfti að sitja undir nýjum ásökunum starfsfólks í leikritum og því sem hann hefur verið að setja upp þarna í Englandi. Þannig að maðurinn virðist vera óferjandi skrímsli, ég held að það sé ekki hægt að segja neitt annað því þetta er ekki eitthvað einsdæmi, eða misskilningur eða eftirsjá eða hann sagði, hún sagði.“

Á aðfangadagskvöld 2018 komu heldur óvænt og undarleg skilaboð úr herbúðum Spaceys. Þá voru nokkrir mánuðir liðnir frá því að Rapp steig fyrst fram. Myndband birtist allt í einu á YouTube-rás leikarans, þar sem hann talar við myndavélina sem Frank Underwood, klæddur í jólasvuntu að, að því er virðist, ganga frá eftir jólamatinn. Þar ávarpar Spacey ásakanirnar sem hafa verið settar fram á hendur honum og neitar þeim staðfastlega. Sem Frank Underwood. Einn lævísasti og svikulasti stjórnmálamaður kvikmyndasögunnar. Þetta væri allt saman stórt samsæri og ekki væru öll kurl komin til grafar. Þessi óvenjulega og furðulega leið til að hreinsa nafn sitt var af flestum dæmd ómerk og jafnvel svolítið óhugnanleg. 

Lítil og óhugnanleg jólahefð

Svo leið heilt ár - akkúrat. Þá kom annað myndband. Spacey var þarna að reyna að koma á fót lítilli og skrítinni jólahefð kannski. Þar situr hann við snarkandi arineld í jólapeysu, sem Frank Underwood, og talar við áhorfendur á nýjan leik. Þriðja myndbandið kom svo á aðfangadagskvöld 2020, þar sem hann er ekki í hlutverki Underwood, heldur sem hann sjálfur. Þar færir hann áhorfendum sínum hughreystandi hugvekju og reynir að stappa í þau stálinu sem hafa átt erfitt.  

„Hann mælti með einhverjum sjálfsvígshjálparlínum og einhverju slíku og sagði að fólk ætti alls ekki að taka skrefið til fulls. Allar þessar kveðjur hafa vægast sagt fallið í grýttan jarðveg,“ segir Dröfn. 

Þessi miðlun Kevins Spacey á númerum sjálfsvígshjálparlína gæti mögulega verið sprottin af öðru en því að hann væri bara svona góður maður og umhugað um sálgæslu aðdáenda sinna. Í desember 2019 bárust fregnir af því að þrjár manneskjur, tveir karlar og ein kona, hefðu látist á árinu. Þau áttu það sameiginlegt að hafa sakað Spacey um kynferðislega áreitni á einhverjum tímapunkti. 

epa10015714 US actor Kevin Spacey (C) departs Westminster Magistrates Court in London, Britain, 16 June 2022. Spacey has been charged with four counts of sexual assault against three men.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA - RÚV
Spacey mætir í réttarsal í London

Eiginmaður norsku prinsessunnar lést

Ari Behn, norskur rithöfundur og leikskáld, og eiginmaður norsku prinsessunnar Mörtu Louise, sakaði Spacey 2017 um að hafa káfað á kynfærum sínum í Nóbelsverðlauna-eftirpartýi tíu árum fyrr. Behn hafði glímt við alkahólisma og þunglyndi og svipti sig lífi á jólunum, einungis nokkrum klukkustundum eftir að Spacey deildi arin-jólakveðjunni undarlegu á YouTube. Annað andlát var tilkynnt þegar ónefndur nuddari sem hafði sakað Spacey um að hafa brotið á sér, dó skyndilega í september, einungis einum mánuði áður en hann átti að mæta í réttarsal vegna málaferla gegn leikaranum. Svo var það hjúkrunarfræðingurinn Linda Culkin, sem hafði sakað Spacey um kynferðisbrot gegn ungum mönnum, meðal annars skjólstæðingi hennar. Culkin varð fyrir bíl og lést. 

Ásakanir og kærur á færibandi

Það kom engin jólakveðja frá Spacey um síðustu jól. Enda er svo sem nóg annað að gera hjá honum þessa dagana. Þrátt fyrir fjölmargar ásakanir og kærur á hendur honum, hefur Kevin Spacey aldrei verið fundinn sekur í réttarsal. Sum réttarhöldin yfir honum hafa verið bæði mjög sérstök og klúðursleg. Þolendur hans hafa neitað að tjá sig, sumir hafa raunverulega dáið eins og áður segir, aðrir hafa dregið ásakanir til baka. 

Dröfn segir þetta á margan hátt sorglegt mál hvernig komið er fyrir Spacey og fórnarlömbum hans. Hann hafi til að mynda verið ötull baráttumaður fyrir HIV-forvörnum og stofnaði samtök þeim tengd. 

„En það er búið að loka þeim samtökum. Það vill enginn snerta hann. Hann er bara eins og… Súkkat sem söng um kúkinn í lauginni. Hann er bara svoleiðis. Það vill enginn snerta hann. Hann er bara alveg eitraður.“

Hvað gerum við með arfleifð vondra kalla? 

Og þá erum við komin með spurningu sem mörg velta líklega ítrekað fyrir sér, ekki bara í tengslum við Kevin Spacey, heldur alla þá listamenn sem hafa verið afhjúpaðir sem brotamenn. Er hægt að skilja listamanninn frá manneskjunni? Eigum við öll að hætta að horfa á House of Cards eða kynna börnin okkar fyrir Usual Suspects? Kannski er hið síðarnefnda hvort eð er ekkert góð hugmynd. Á að taka þennan fyrrverandi gulldreng algjörlega út af sakramentinu eða megum við njóta hæfileika þeirra sem hafa gert ógeðslega hluti? Svo má heldur ekki gleyma að Kevin Spacey stendur ekki einn á bak við öll þau fjölmörgu meistaraverk sem hann hefur tekið þátt í að skapa. Auðvitað megum við það, þó að við getum það kannski ekki á sama hátt og áður. Við horfum öðruvísi á þessa menn, hlustum öðruvísi á þá. Sum segja að þetta sé svolítið eins og að uppgötva að einhver sem stendur þér nærri, einhver sem þér þykir vænt um, sé kynferðisbrotamaður. Listafólk fylgir okkur margt í gegn um lífið með verkum sínum og hæfileikum, við setjum þau á stall, og auðvitað verður það erfitt þegar það er ekki hægt lengur. En tímarnir eru að breytast og vonandi þurfum við ekki að velta þessu fyrir okkur í marga áratugi til viðbótar.  Dröfn segir mikið hafa breyst í Hollywood síðan Metoo bylgjan skall á þarna í kring um 2017.  

„Ég vinn sjálf í Hollywood og ég finn fyrir mjög mikilli breytingu í öllum vinnu kúltúr hér sem er tekinn mjög alvarlega. Ég má ekki vinna ef ég er ekki búin að fara í kynferðisáreitni-vinnunámskeið sem ég þarf að klára og er tekinn mjög alvarlega. Það er allt önnur stemning í borginni. Það var ekkert endilega rými fyrir þetta fyrir svona 13 árum síðan, þegar ég byrjaði hérna,“ segir Dröfn.

„Við sjáum bara hérna menn eins og Harvey Weinstein og fleiri yfirmenn sem eru hér að falla í valinn vegna eigin hegðunar. Sem betur fer. Það er kominn tími til.“

epa05380872 US actor Kevin Spacey attends the presentation of the Spring/Summer 2017 Menswear Collection by Italian label Giorgio Armani during the Milan Fashion Week, in Milan, Italy, 21 June 2016. The Milano Moda Uomo runs from 17 to 21 June.  EPA
Kevin Spacey hefur enn ekkert tjáð sig um ásakanir starfsmanna Old Vic. Mynd: EPA - ANSA
04.09.2022 - 08:30