Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Arka áfram um Evrópu í skugga alvarlegra ásakana

epa06957988 Canadian band Arcade Fire performs at 'Paredes de Coura' music festival, in Paredes de Coura, north of Portugal, 19 August 2018. The festival runs until 18 August.  EPA-EFE/JOSE COELHO
 Mynd: EPA

Arka áfram um Evrópu í skugga alvarlegra ásakana

04.09.2022 - 17:15

Höfundar

Þrátt fyrir alvarlegar ásakanir gegn aðalsprautu kanadísku hljómsveitarinnar Arcade Fire heldur hún tónleikaferð sinni um Evrópu ótrauð áfram. Góð stemning var meðal áhorfenda í Manchester í gærkvöld samkvæmt staðarmiðlinum Manchester Evening News. Kanadíska söngvaskáldið Leslie Feist hætti sem upphitunaratriði hljómsveitarinnar á tónleikaferðinni eftir tvenna tónleika í Dyflinni.

Þrjár ungar konur og eitt kvár stigu fram og greindu frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi af hálfu Wins Butlers yfir nokkurra ára tímabil. Tónlistarmiðillinn Pitchfork náði tali af þeim fjórum og fékk einnig viðbrögð frá Butler og eiginkonu hans til um tuttugu ára, Regina Chassagne. Konurnar og kvárið voru á aldrinum 18 til 23 ára þegar Butler var í samskiptum við þau, en hann var 36 til 39 ára. 

Í yfirlýsingum sínum segist Butler hafa átt í  kynferðislegum samskiptum með samþykki við öll fjögur sem gefa sig fram við Pitchfork. Þau upplifðu samskiptin ekki á sama máta. Öll lýsa þau óviðeigandi tilburðum af hans hálfu, annaðhvort með skilaboðum eða líkamlegri snertingu. Þau koma öll fram undir dulnefni í grein Pitchfork.

Lily var 21 árs þegar hán hitti Butler fyrst, á tónleikum með annarri hljómsveit í Montreal snemma árs 2015. Hán greinir frá fjölda atvika þar sem Butler þröngvaði sér á hán, með snertingum eða kossum. Sjálfur greinir Butler öðruvísi frá atvikunum og segir allt hafa gerst með samþykki beggja. Þá greinir hann einnig frá kossum og daðri sem Lily kannast ekkert við. 

Óumbeðnar myndir og valdaójafnvægi

Konurnar þrjár greina frá ýmiss konar ofbeldi og áreitni af hálfu Butlers frá árinu 2016. Hann sendi þeim til að mynda óumbeðnar myndir af kynfærum sínum og ýmiss konar kynferðisleg skilaboð. Hann hélt því áfram þrátt fyrir að kona sem nefnd er Stella í Pitchfork hafi þrábeðið hann um að hætta því. Í skilaboðum til vinkonu sinnar segir hún frá því hversu óþægilegt henni þyki að Butler sé sífellt að biðja hana um nektarmyndir.

Tvær ungar konur greina svo frá því að þær hafi átt í kynferðislegu sambandi við Butler þegar þær voru rétt rúmlega tvítugar á árunum 2017 og 2018. Þær segja báðar að Butler hafi nýtt sér stöðu sína sem frægur einstaklingur. Önnur þeirra segir Pitchfork að hún hafi gert allt vegna þess hver hann var. Hún hafi engan áhuga á að gera neitt af því sem hún var beðin um, en hafi látið undan. Hin greinir frá mjög erfiðum tíma andlega eftir samband hennar við Butler. Það hafi tekið sinn toll að þurfa að halda öllu leyndu og ýta eigin þörfum frá til þess að þóknast Butler.

Lofar bót og betrun

Butler sjálfur lýsir samskiptum sínum við konurnar allt öðruvísi, og segir allt hafa verið gert með gagnkvæmu samþykki. Í yfirlýsingu sinni til Pitchfork segist hann þó miður sín yfir að hafa sært einhvern með hegðun sinni. Auk þess segist hann hafa glímt við erfitt þunglyndi þegar hann var á fertugsaldri, en segir það þó enga afsökun fyrir gjörðum sínum. Hann kveðst hafa unnið mikið í sjálfum sér undanfarin ár og ætli að gera betur í framtíðinni.

Eftir að MeToo-bylgjan hófst hafa sambönd frægra tónlistarmanna við aðdáendur þeirra verið litin nýju ljósi. Valdaójafnvægið getur orðið slíkt að aðdáendum líði eins og þeir séu þvingaðir til að gera eitthvað sem þeir vilja ekki. Pitchfork hefur eftir lögfræðingnum Alexandra Brodsky að undanfarin ár hafi athyglin beinst að því að valdaójafnvægið geri fólki erfiðara um vik að neita að gera eitthvað. Hún segir þó að við séum ekki jafn langt á veg komin með lögfræðilega hlið viðlíka mála og menningarlega. 

Samfélagsmiðlar Arcade Fire hafa verið ansi hljóðir síðan Pitchfork greindi fyrst frá ásökunum kvennanna og kvársins. Söngvaskáldið Leslie Feist greindi frá því á Twitter á fimmtudag að hún hafi ákveðið að hætta að hita upp fyrir hljómsveitina á tónleikaferðalaginu um Evrópu.

Hún segir að í textum sínum skrifi hún um eigin erfiðleika og lýsi ábyrgð þegar þess þurfi. Ef hún héldi tónleikaferðinni áfram væri hún annaðhvort að lýsa yfir stuðningi eða líta fram hjá því sem Butler hafi gert. Með því að yfirgefa ferðalagið væri hún svo mögulega að gefa í skyn að hún væri dómari í málinu. Hún kvaðst þó ekki geta haldið áfram að hita upp fyrir Arcade Fire að svo stöddu. Samtalið sé mikilvægara en hún, tónlistin hennar og eitthvað tónleikaferðalag. Fulltrúi Arcade Fire sagði eftirsjá af Feist en bæði skilja og virða ákvörðun hennar.

Þrátt fyrir ákall aðdáenda sveitarinnar um að hætta við tónleikaferðalagið heldur Arcade Fire ótrauð áfram spilamennsku sinni um Evrópu. Aðdáendur hafa einnig kallað eftir því að fá miða sína endurgreidda í ljósi tíðindanna af hegðun Butlers. Stærsta almenningsútvarpsstöð Kanada er meðal nokkurra norður-amerískra útvarpsstöðva sem hafa tekið alla tónlist Arcade Fire úr spilun eftir ásakanir fólksins. 

Blaðamaður Manchester Evening News segir þá sem mættu á tónleikana í borginni í gærkvöld hafa skemmt sér vel, og virtust ekki láta fregnir síðustu daga trufla upplifunina. Miðar á tónleika sveitarinnar í Glasgow í Skotlandi á morgun eru nú margir hverjir auglýstir til sölu á samfélagsmiðlum langt undir því verði sem þeir voru keyptir fyrir.