Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ágúst kaldari en í meðalári í öllum landshlutum

04.09.2022 - 05:39
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
Ágústmánuður var tiltölulega kaldur um allt land, er fram kemur í samantekt Veðurstofu Íslands. Meðalhiti var í kring um 10 gráður í Reykjavík, á Akureyri og Höfn í Hornafirði og var meðalhiti á nær öllum veðurstöðvum landsins lægri en undanfarinn áratug.

Hæsti hitinn á norðurlandi 30. ágúst

Undir lok mánaðar mældist hæsti hiti sumarsins á Tjörnesi, 25 stig þann 30. ágúst. Fremur sjaldgæft er að hlýjasti dagur sumarsins sé svo seint á ferðinni. Lægsti meðalhiti mánaðarins mældist á Þverfjalli, eða 4 stig.

Þurrt í höfuðborginni og á Akureyri

Mánuðurinn var víða þurrari en í meðalári. Heildarúrkoma í Reykjavík var rúmir 54 millímetrar, eða um 85% af meðalúrkomu undanfarinna áratuga. Svipaða sögu er að segja frá Akureyri, þar sem meðalúrkoman í ágúst var aðeins um 69% af því sem fellur í meðalári.

Þrátt fyrir lítil hlýindi var ágúst nokkuð sólríkur. Sólin skein á Reykvíkinga í hátt í tæpar 190 klukkustundir, eða 24 klukkustundum meira en í meðal ári. Sólin skein einnig óvenju glatt fyrir norðan, þar sem mældust yfir 164 sólskinsstundir, sem er 26 klukkutímum yfir meðallagi.