Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Biðu í sjúkrabíl eftir plássi á bráðamóttöku

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sjúkraflutningamenn á höfuðborgarsvæðinu áttu í erfiðleikum í gærkvöldi með að koma sjúklingum úr sjúkrabílum og inn á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Öll pláss voru full á slysadeildinni og urðu sjúklingar að bíða í sjúkrabílnum þar til pláss losnaði inni á deildinni.

Að sögn varðstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins kemur það reglulega fyrir að sjúklingar þurfi að bíða eftir plássi. Hann vill þó ekki segja að þetta sé algengt vandamál. Sjúkraflutningamenn veita sjúklingnum aðhlynningu á meðan beðið er eftir að þeir komist inn á bráðamóttökuna, og að sögn varðstjóra fá forgangssjúklingar alltaf pláss. 

Fjórtán hjúkrunarfræðingar létu af störfum á bráðamóttöku um mánaðamótin. Hluti þeirra sagði upp vegna álags á deildinni. Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, sagði í viðtali við fréttastofu að það væri mikið áhyggjuefni, en fullyrti þó að betri staða væri í vændum. Hildur Dís Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri á bráðamóttöku sagði í gær að ekki væri þörf á jafn mikilli mönnun innan deildarinnar og áður þar sem um helmingi færri sjúklingar eru innlagðir á deildina en þegar mest lét. Yfirlýst markmið spítalans frá 1. september er að ekki skuli fleiri en 20 sjúklingar liggja inni á bráðamóttökunni í einu.