Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segir stöðuna á bráðamóttökunni betri en oft áður

02.09.2022 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Um helmingi færri sjúklingar eru innlagðir á bráðamóttöku nú en þegar mest lét og því ekki þörf á jafn mikilli mönnun segir aðstoðardeildarstjóri. Hún segir vinnu framkvæmdastjórnar spítalans við að bæta fráflæði hafa borið árangur.

Fjórtán hjúkrunarfræðingar létu af störfum á bráðamóttöku í gær, hluti þeirra sagði upp vegna álags.  „Fyrsti september, hann kom í gær. En við höfum vitað af honum í ansi langan tíma og það er hellings undirbúningur búinn að vera í gangi fyrir 1. september. Hann birtist ekkert óvænt í gær og enginn var viðbúinn. Framkvæmdastjórn spítalans hefur unnið hellings vinnu við það að bæta fráflæði bráðamóttökunnar. Og það hefur alveg sýnt sig í verki. Og við sjáum klárlega mun,“ segir Hildur Dís Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri á bráðamóttöku Landspítalans. 

Aðspurð hvort staðan sé þá kannski ekkert svo slæm á bráðamóttökunni svarar Hildur: „Það er auðvitað mjög leitt að missa alla þessa fagmenn í burtu frá okkur. Bráðamóttakan er þannig að við tökum einn dag í einu og það er ekkert að breytast og hefur alltaf verið þannig hjá okkur.“ Hún bendir á að yfirlýst markmið framkvæmdastjórnar spítalans sé að ekki skuli liggja fleiri en 20 sjúklingar inni á bráðamóttökunni frá 1. september. Þegar fréttastofa leit við voru 18 sjúklingar innlagðir, en þegar mest lét voru þeir um 40. „Og með því að það sé búið að losa frá okkur mikið af innlögðum sjúklingum. Getum við aðeins minnkað mönnun hjá okkur á móti,“ segir Hildur. 

Í kvöldfréttum í gær sagði Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, betri stöðu í vændum. Hildur er sammála því. „Já ég er sammála því að það er hellings vinna sem hefur farið fram, þó við viljum alltaf sjá meiri árangur. En við auðvitað lítum björtum augum á næstu daga. Við tökum bara einn dag í einu, að þetta gangi áfram. Og það verði gott ástand, sem sagt vinnuaðstæður á bráðamóttökunni. Því þetta er besti vinnustaður í heimi.“