Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mistök ollu að sjúklingar urðu að greiða fullt gjald

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Reglugerð um niðurgreiðslu kostnaðar sjúklinga vegna sérgreinalækninga rann út í morgun án endurnýjunar fyrir mistök. Því var útlit fyrir að Sjúkratryggingar Íslands tækju ekki lengur þátt í kostnaði sjúklinga við læknisþjónustu. Mistökin hafa nú verið leiðrétt en margir sjúklingar þurftu að greiða fullt gjald fyrir þjónustu í morgun.

Fréttastofu er kunnugt um að einhverjar sérgreinalæknastofur hafi sent póst á alla sjúklinga sína í morgun þar sem tilkynnt var um að þeir yrðu að greiða fullt gjald fyrir þjónustu. Heilbrigðisyfirvöld voru þar sögð bera alla ábyrgð á ástandinu.

Í pósti einnar læknastofu til sinna sjúklinga segir: „Frá og með 1. september 2022 er því engin heimild í lögum eða reglugerðum fyrir því að SÍ greiði hluta kostnaðar sjúklinga beint til lækna til hagræðis fyrir sjúklinga og SÍ. Því er okkur nauðugur einn kostur að taka fullt gjald af þér fyrir komuna í dag eins og gert er ráð fyrir í lögum um Sjúkratryggingar þegar ekki er til staðar samningur."

Þær upplýsingar hafa borist frá heilbrigðisráðuneytinu að mannleg mistök hafi valdið því að reglugerðin var ekki endurnýjuð. Sjúkratryggingar Íslands munu koma til móts við þá sem urðu að borga fullt gjald fyrir sérgreinalæknaþjónustu í morgun. Umrædd reglugerð hefur nú verið endurnýjuð og gildir til 31. október. 

Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðherra hafa ekki samið fomlega við sérgreinalækna um þátttöku í kostnaði sjúklinga frá árinu 2018 og þess í stað hafa verið gefnar út reglugerðir þar um. 

Fréttin hefur verið uppfærð og fyrirsögn sömuleiðis. Heilbrigðisráðuneytið hefur nú sent frá sér fréttatilkynningu vegna málsins:

 

Gildistími reglugerðar heilbrigðisráðherra um endurgreiðslu vegna þjónustu sérgreinalækna hefur verið framlengdur frá 1. september til 31. október nk. Reglugerð um framlenginguna hefur verið send Stjórnartíðindum og birtist í  dag. Réttur sjúklinga til endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sérgreinalækna helst því óbreyttur. Samningaviðræður milli Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna standa yfir. Heilbrigðisráðuneytið leggur áherslu á að staða sjúklinga gagnvart endurgreiðslu kostnaðar meðan samningar liggja ekki fyrir sé tryggð.

Fyrir mistök var reglugerð um framlengdan gildistíma reglugerðar um endurgreiðslu vegna þjónustu sérgreinalækna ekki send Stjórnartíðindum nógu tímanlega til að hún birtist 1. september. Réttur til endurgreiðslu er engu að síður tryggður frá og með 1. september.

 

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV