Soffía Steingrímsdóttir hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans í hátt í átta ár. Hún hefur nú unnið sinn síðasta vinnudag þar.
„Þetta er búið að vera mjög langur aðdragandi. Við erum búin að hrópa og kalla út af álagi og ógn við öryggi sjúklinga í fleiri ár. Og þá sérstaklega núna síðustu tvö árin þar sem óásættanlegt ástand hefur skapast á bráðamóttökunni,“ segir Soffía.
Hún segir að þarna gildi ekki lögmálið um að maður komi í manns stað því það taki tíma að öðlast reynslu og færni í starfinu. Fjórtán hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökunni létu af störfum um mánaðamótin og álíka margir munu að óbreyttu hætta um þau næstu.
Vítahringur sem reynt sé að rjúfa
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, segir að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að snúa þessari þróun við.
„Þetta eru vinnuaðstæður sem eru mjög erfiðar. Þeim fylgja mikið álag og þá heltist úr lestinni og þá myndast mannekla og þá er þetta enn erfiðara. Þetta er vítahringur sem við höfum verið að reyna að finna leiðir til að rjúfa,“ segir Runólfur.