Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hætta á bráðamóttökunni en forstjórinn lofar betri tíð

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Fjórtán hjúkrunarfræðingar létu af störfum á bráðamóttöku Landspítalans í dag og viðbúið er að svipaður fjöldi hætti um næstu mánaðamót. Forstjóri Landspítalans segir þetta mikið áhyggjuefni og þróun sem verði að snúa við með öllum tiltækum ráðum. Hann fullyrðir þó að betri staða sé í vændum.

Soffía Steingrímsdóttir hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans í hátt í átta ár. Hún hefur nú unnið sinn síðasta vinnudag þar. 

„Þetta er búið að vera mjög langur aðdragandi. Við erum búin að hrópa og kalla út af álagi og ógn við öryggi sjúklinga í fleiri ár. Og þá sérstaklega núna síðustu tvö árin þar sem óásættanlegt ástand hefur skapast á bráðamóttökunni,“ segir Soffía. 

Hún segir að þarna gildi ekki lögmálið um að maður komi í manns stað því það taki tíma að öðlast reynslu og færni í starfinu. Fjórtán hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökunni létu af störfum um mánaðamótin og álíka margir munu að óbreyttu hætta um þau næstu.

Vítahringur sem reynt sé að rjúfa

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, segir að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að snúa þessari þróun við.

„Þetta eru vinnuaðstæður sem eru mjög erfiðar. Þeim fylgja mikið álag og þá heltist úr lestinni og þá myndast mannekla og þá er þetta enn erfiðara. Þetta er vítahringur sem við höfum verið að reyna að finna leiðir til að rjúfa,“ segir Runólfur.

 

Soffía Steingrímsdóttir
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Soffía Steingrímsdóttir hefur látið af störfum sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans.

 

Hann segist binda vonir við að fá þjónustuúrræði fyrir sjúklinga sem hafa lokið meðferð á sjúkrahúsinu en komast ekki þaðan vegna skertrar færni.

„Og það er búið að vera að bíða eftir bæði hjúkrunarrými, endurhæfingarrými og þetta er í augsýn núna í þessum mánuði í september. Við bindum miklar vonir við það og það hjálpar strax ef við getum þá létt á bráðamóttökunni.“

Soffía segir hjúkrunarfræðingana sorgmædda og vonsvikna yfir að ekki hafi verið brugðist við uppsögnunum. 

„Ég vona svo sannarlega að ég hafi ekki unnið minn síðasta vinnudag hérna á bráðamóttöku og komi hérna þegar það hefur skapast viðunandi vinnuumhverfi,“ segir Soffía. 

„Okkur hefur ekki tekist enn þá að sannfæra þetta fólk um að betri staða sé í vændum. En eins og ég sagði bindum við miklar vonir við þessi hjúkrunarrými og endurhæfingarrými fyrir aldraða og við erum líka að leita leiða til að bæta vinnuumhverfi almennt séð. Þannig að við höldum áfram í þeirri vinnu,“ segir Runólfur.

 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV