Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Björgunarsveitir hættar gæslustörfum í Meradölum

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Björgunarsveitir hafa hætt gæslustörfum í Meradölum enda mælist engin gosórói á Reykjanesskaga og önnur virkni á svæðinu er lítil. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Samhæfingarstöðvar Almannavarna. Áætlað er að landverðir hefji störf eftir helgi. Bannað er að ganga á hrauninu sem hefur runnið í tveimur eldgosum, meðal annars vegna náttúruverndar.

Fram kemur í stöðuskýrslunni að björgunarsveitir muni áfram bregðast við vanda í neyðartilvikum. Unnið er á hættustigi en staðan verður endurmetin í næstu viku.

Tvö teymi lögreglumanna og sjúkraflutningamanns eru á svæðinu. Almannavarnir segja að þau hafi getað sinnt því sem þarf.

Talið er að um þúsund til fimmtán hundruð manns heimsækja gosstöðvar daglega.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV