Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tuttugu og sjö prósenta hækkun á lambakjöti í haust

31.08.2022 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kjarnafæði-Norðlenska hefur tilkynnt um tuttugu og sjö prósenta verðhækkun á lambakjöti til verslana í haust. Afurðastöðvar eru þessa dagana að ákveða verð til viðskiptavina og víða eru miklar hækkanir fram undan.

Hækkun á afurðaverði nær alla leið til verslana

Það er ljóst að umtalsverð hækkun á afurðaverði, sem sláturfyrirtækin greiða bændum í haust, verður til þess að kjötverð í verslunum hækkar mikið. Þannig hefur Kjarnafæði-Norðlenska tilkynnt viðskiptavinum sínum um 27% hækkun á lambakjöti og 10% hækkun á öðrum kjöttegundum.

Verðbreytingar sem taldar eru nauðsynlegar

Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Kjarnafæðis-Norðlenska, segir að þetta séu verðbreytingar sem þau telji nauðsynlegar í framhaldi af hækkunum til bænda. „Framleiðslukostnaður til bænda á þeim vörum sem við kaupum af þeim hefur hækkað gríðarlega mikið. Og það þýðir að það þarf að hækka kostnaðarverð og þá söluverð þeirrar vöru sem úr því kemur.“

Hækkanir hjá öðrum afurðastöðvum

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, býst við að tilkynna verð til verslana fyrir vikulok. Í einhverjum tilfellum verði álíka hækkanir og hér eru nefndar, en einnig minni og sums staðar engar í einstaka vöruflokkum. Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, tekur í sama streng. Þar sé þó enn verið að semja um kjötverð við helstu viðskiptavini. En það séu miklar hækkanir fram undan og í sumum tilfellum á sömu nótum og verð sem nú sé að birtast.

Landbúnaðurinn ráði ekki við miklar kostnaðarhækkanir

Ágúst Torfi segir að þrátt fyrir þetta séu kjötframleiðendur mjög meðvitaðir um þörfina fyrir lágt vöruverð. „Þessu er stillt eins mikið í hóf og kostur er. Afkoma í landbúnaði hefur verið afar bágborin um langt skeið. Bæði hjá frumframleiðendum, bændum, og úrvinnsluaðilum og þol þessara aðila til að taka á sig kostnaðarhækkanirnar er ekkert.“