Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gamlar hefðir víkja og Jóhann landlausi mættur aftur

31.08.2022 - 20:00
Mynd: Sunna Karen Sigurþórsdóttir / RÚV
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar komu saman með forseta Íslands á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag, með örlítið breyttu sniði. Forseti Íslands segir mikilvægt að halda í formfestuna en að breytingar séu einnig nauðsynlegar.   

Ráðherrarnir mættu hver á fætur öðrum í hálf hráslagalegu veðri á Bessastaði í dag. Tilefnið var ríkisráðsfundur sem almennt er haldinn á hálfs árs fresti - eða allt þar til heimsfaraldurinn skall á. Þá þurfti ýmist að fresta fundum eða ráðherrar að bera grímur og skipta þurfti út Jóhanni landlausa, ríkisráðsborðinu fræga, svo hægt væri að halda eins metra fjarlægð líkt og lög og reglur kváðu á um.   

 „Í fyrsta skipti eftir heimsfaraldurinn kom ríkisráð saman við hið sígilda ríkisráðsborð,”  segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.  

Litlu borði bætt við svo allir komist fyrir

 Ríkisráðsfundir eru svo hefðbundnir og formfastir að smávægilegar breytingar vekja oft eftirtekt. Eins og sú minniháttar staðreynd að hið fjögur hundruð ára gamla eikarborð sé komið aftur á sinn stað, þrátt fyrir að það sé í raun allt lítið nú eftir að ráðherrum var fjölgað.   

„Það má svo sem gantast með það að borðið sé ákveðinn hemill á fjölgun ráðherra, þótt þeir geti að sjálfsögðu verið samkvæmt okkar stjórnskipun óendanlega margir ef út í það er farið,” segir Guðni, en litlu borði er bætt við svo allir tólf auk forseta komist fyrir.  

 Og þannig höfum við í áranna rás séð ráðherrana stilla sér upp á nákvæmlega sama hátt við borðið. En þetta eru ekki einu breytingarnar. Og mögulega fagna fundargestir sjálfir mest breytingunni frá þeirri hefð að ráðherrar þylji upp frá orði til orðs skriflegar tillögur sínar.  

 

 

 „En nú varð sú breyting á að í stað þess tóku ráðherrar saman í hnitmiðuðu máli þær tillögur sem þeir leggja fram,” segir Guðni. „Sá virðulegi og formlegi blær ríkisráðs heldur sér en langur lestur skriflegra tillagna var ekki viðhafður.” 

Embættið haldi í hefðir en sé þó opið fyrir breytingum.  

„Sumt breytist og annað ekki og stundum er það þannig að það sem fólk upplifir og reynir kannski fyrir áratug eða svo í fyrsta sinn, heldur jafnvel að svo hafi raunin alltaf verið öldum saman, en það er ekki endilega svo.” 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV