Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ástarátak í Vogum til að fjölga íbúum

31.08.2022 - 14:16
Mynd með færslu
Sveitarfélagið Vogar. Mynd úr safni. Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Íbúar í Vogum eru hvattir til að fagna ástinni í september í þeirri von að hún beri ávöxt á vormánuðum. Börn sem fæðast þá fá frítt í íþróttaskólann árin 2025 til 2027.

Þá fá íbúar afslátt af hjálpartækjum ástarlífsins en þurfa áfram að greiða fullt verð fyrir getnaðarvarnir. „Við hjá Ungmennafélaginu Þrótti Vogum höfum fundið fyrir því að á síðustu fimm eða sex árum hefur iðkendum hjá félaginu fækkað all verulega og á sama tíma hefur nemendum í skólanum fækkað,” segir Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar Vogum. 

„TIl að sporna við þessari þróun höfum við ákveðið að stofna til ástarmánaðar í september og hvetja fólk til að eiga notalega stund saman, félaginu til eflingar.” Marteinn segir að íbúum hafi fjölgað ört en börnum fækkað. Nú séu um 160 börn í grunnskólanum þegar þau voru yfir 200 talsins fyrir nokkrum árum. „Er staðan orðin þannig hjá ykkur að þetta er bara orðið áhyggjuefni? Nei, ég myndi alls ekki segja það. Alveg fjarri lagi. En staðan er þannig að við finnum kannski fyrir því að það vantar einn, tvo, þrjá upp á í knattspyrnuflokkunum og öðrum íþróttagreinum,” segir hann.  

Hann segir íbúa hafa tekið afar vel í hugmyndina.  „Það er strax farið að brosa út í annað þegar maður rekst á fólk hérna á göngunum. Ætlar þú að leggja þitt af mörkum í átakinu? Það er aldrei að vita,” segir Marteinn.

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV