Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Aldrei hafa fleiri látist úr ofskammti lyfja en í fyrra

31.08.2022 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Aldrei hafa fleiri látist vegna lyfjaeitrana en á síðasta ári. Samkvæmt nýbirtum tölum Landlæknisembættisins um lyfjatengd andlát 46 árið 2021, 24 á fyrri helmingi ársins og 22 á síðari helmingi. Af þeim sem létust vegna lyfjaeitrana voru níu undir þrítugu. Ópíóíðinn oxycontin og flogaveikilyfið pregabalin voru algengustu lyfin sem fundust í þeim látnu. Þetta helst fjallaði um lyfjatengd andlát og ópíóíða í dag.

Hægt er að hlusta á þátt dagsins í spilaranum hér að ofan.

Embætti landlæknis birtir á hálfs árs fresti tölur yfir lyfjatengd andlát hér á landi. Ég er búin að bíða eftir tölunum fyrir seinni hluta síðasta árs í nokkurn tíma og nú eru þær loksins komnar. 46 manns létu lífið á Íslandi 2021 vegna lyfjaeitrana, 24 frá janúar til júní, aldrei fleiri á hálfs árs tímabili, og 22 frá júlí til desember. Alls 46 - aldrei fleiri. Enn eitt metið. Ef maður slær lyfjatengd andlát inn í leitarglugga Google hrúgast inn fyrirsagnir á borð við: Aldrei fleiri lyfjatengd andlát, Lyfjatengdum andlátum hefur fjölgað um 47% hjá 30-44 ára, 11 undir þrítugu létust af völdum lyfja á síðasta ári, Nýr ópíóíðafaraldur á Íslandi, Fleiri létust af völdum ávísaðra lyfja á Íslandi en í Bandaríkjunum... og svo framvegis. 

30 til 44 ára algengasti aldur við andlát

Andlát eru skráð sem lyfjatengd þegar megin-dánarorsök er eitrun af völdum lyfja, löglegra og ólöglegra. Allt árið 2020 voru 37 lyfjatengd andlát, 2019 voru þau 30 og svo 2018 voru þau 39, eins og áður segir. 2017 voru 30 andlát skráð sem lyfjatengd. Þetta eru svo sem ekkert rosalega háar tölur miðað við risalandið Ameríku, en háar miðað við litla landið Ísland. 

En höldum okkur við síðasta ár og skoðum tölfræðina aðeins betur. Af þessum 46 andlátum var blessunarlega enginn undir 18 ára aldri skráður. 9 voru á aldrinum 18 til 29 við andlát, flestir á aldrinum 30 til 44 ára, 17 manns. 13 voru á aldrinum 45 til 59 ára, fjórir á aldreinum 60 til 74 ára og svo þrír 75 ára og eldri. Meirihlutinn voru karlar, 28, en konurnar voru 18. Af þessum 46 sem dóu vegna lyfjaeitrunar voru 34 á höfuðborgarsvæðinu og 12 á landsbyggðinni. 

Morð og læknamistök ekki inni í tölunum

Tölur um dánarorsakir byggja á dánarvottorðum einstaklinga sem áttu lögheimili á Íslandi við andlát. Með lyfjatengdum andlátum er átt við andlát vegna eitrana ávana- og fíkniefna sem og lyfja. Þjóðir heims hafa ekki sammælst um eina alþjóðlega tölfræðilega skilgreiningu á lyfjatengdum andlátum. Embætti landlæknis notar skilgreiningu sem lögð var til af norrænum vinnuhópi árið 2017 og samkvæmt henni eru þau andlát skilgreind sem lyfjatengd ef undirliggjandi dánarorsök, án tillits til ásetnings, er eitrun af völdum ávana- og fíkniefna sem og lyfja. Undir þessa skilgreiningu falla því óhappaeitranir, vísvitandi sjálfseitrun og eitranir þar sem ásetningur er óviss. Lyfjaeitranir í manndrápsskyni sem og eitranir sem eru aukaverkun læknisfræðilegrar meðferðar falla ekki undir lyfjatengd andlát. 

Fjórðungur skilgreint sem sjálfsvíg

Samkvæmt dánarmeinaskrá embættis landlæknis er fjórðungur lyfjatengdra andláta síðustu tíu árin sjálfsvíg, skilgreint sem vísvitandi sjálfseitrun. Stærstur hluti lyfjatengdra er skilgreindur sem óhappaeitranir, um 66%, síðastliðinn áratug. 

Oxy og pregabalin algengustu lyfin

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði sér um krufningar og réttarefnafræðilegar rannsóknir í þágu lögreglu og dómsyfirvalda. Stofan rannsakar sýni frá lögreglu vegna rannsókna á mögulegum sakamálum, en sinnir líka sýnum úr réttarkrufningum. 

Rannsóknarstofan birtir töflu með helstu lyfjum og efnum sem fundust í blóði fólks sem lést úr eitrun. Taflan nær yfir tímabilið 2017 til 2021. 

15 með oxý og 15 með pregabalín

Árið 2017 voru gerðar 163 krufningar, þar af voru 37 eitranir. Í fyrra voru 173 krufningar, og þar af 58 eitranir. Ópíóíðinn oxýkódón, oxý, fannst í 15 látnum einstaklingum í fyrra. Það fannst í þremur árið 2017. Flogaveikilyfið Pregabalin fannst í jafn mörgum, 15 manns. Pregabalin er líka vímugjafi og nokkuð algengur sem slíkur á svörtum markaði. Það fannst í sjö látnum einstaklingum fyrir fimm árum, 2017. Önnur lyf sem rannsóknarstofan skilgreinir sem algeng og finnast í sýnum látinna eru sterk verkjalyf: Nánar tiltekið kódein, morfín, tramadól, fentanýl, Búprenorfín, Ketóbemídón og metadón. Og svo auðvitað oxý, sem var talið upp hér áðan. Algengasta verkjalyfið. Af ólöglegum fíkniefnum eru amfetamín, sem er algengast, metamfetamín, MDMA, kókaín og THC, sem er virka efnið í kannabis. Í flokknum Önnur lyf eru ADHD lyfið metýlfenídat, og flogaveikilyfin gabapentin og áðurnefnt pregabalin.