Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ákvörðun ESB hefur áhrif á ferðalög Rússa til Íslands

31.08.2022 - 22:39
Mynd: EPA-EFE / EPA
Ísland er skuldbundið til þess að fylgja stefnu ESB í vegabréfsáritunarmálum, þetta kemur fram í skriflegu svari frá utanríkisráðuneytinu en fyrr í dag ákváðu utanríkisráðherrar ESB að fella úr gildi samning um vegabréfsáritanir til rússneskra ríkisborgara.

Með því að slíta samningnum, sem var gerður árið 2007, verður Rússum gert erfiðara og dýrara að fá vegabréfsáritun til Evrópusambandsríkja. Hópur ríkja innan ESB, einkum Finnland og Eystrasaltsríkin, hafði gert kröfu um að gengið yrði lengri og rússneskir ferðamenn hreinlega bannaðir vegna innrásarinnar í Úkraínu. Eftir tveggja daga óformlegan fund í Prag í Tékklandi tilkynnti Joseph Borell, utanríkismálastjóri ESB, að niðurstaðan væri að fella úr gildi áðurnefndan samning.  

Stjórnvöld í Úkraínu eru ekki sátt við þessa málamiðlun. „Ef þið virðið ekki landamæri grannríkis og virðið ekki Evrópu, verið þá heima og njótið Rússlands. Við teljum það sanngjarnt,“ sagði Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu. Þessi ákvörðun utanríkisráðherra ESB-ríkjanna hefur áhrif hér á landi. Í skriflegu svari frá utanríkisráðuneytinu segir að Ísland sé með samhljóma samning við Rússland, enda sé Ísland almennt skuldbundið í gegnum Schengen-samstarfið til þess að fylgja stefnu ESB þegar kemur að vegarbréfsáritunum. Ísland sé að sama skapi skuldbundið til að grípa til sömu ráðstafana og ESB. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV