Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sakfelldur eftir uppljóstranir í hlaðvarpi

30.08.2022 - 16:34
epa10146817 Chris Dawson arrives at the Supreme Court of New South Wales (NSW) in Sydney, NSW, Australia, 30 August 2022. On 30 August, NSW supreme court Justice Ian Harrison found former Sydney school teacher Chris Dawson guilty of murdering his former wife Lynette in 1982, so he could pursue a relationship with the family babysitter. Dawson, an Australian man who became the subject of a popular crime podcast, had been accused of killing Lynette Dawson in 1982.  EPA-EFE/DEAN LEWINS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Dómari í Sidney í Ástralíu dæmdi í dag 74 ára karlmann sekan um morð á eiginkonu sinni. Konan hvarf fyrir 40 árum og ekkert hefur spurst til hennar síðan. Maðurinn neitaði ávallt sök en hlaðvarpsþættir um hvarf konunnar leiddu til þess að rannsókn á morðinu hófst á ný.

Lynette Dawson hvarf 1982. Hún og Chris Dawson, eiginmaður hennar, áttu tvö börn, tveggja og fjögurra ára. Dawson sagðist á sínum tíma hafa heyrt í konu sinni eftir hvarfið en ættingjar og vinir heyrðu ekkert frá henni. 

Áratugir liðu án ákæru

Saksóknarar töldu ekki tilefni til að ákæra eiginmanninn eftir að Lynette Dawson hvarf. Það var ekki fyrr en ástralski rannsóknarblaðamaðurinn Hedley Thomas gerði hlaðvarpsþættina Teacher's Pet um hvarf hennar að lögregla tók til við að rannsaka málið á nýjan leik. Thomas dró fram gömul gögn og fann ný vitni sem vörpuðu ljósi á málið.

Hlaðvarpið var birt 2018 og í desember sama ár var Dawson ákærður fyrir morð á eiginkonu sinni. Hann barðist fyrir að fá málinu vísað frá en kröfum hans var hafnað. Við tóku tveggja mánaða löng réttarhöld sem lauk í dag með sakfellingu.

Myrti eiginkonuna til að vera með barnapíunni

Dómari sagði ljóst að Chris Dawson hefði myrt Lynette, eiginkonu sína. Hann sagði sannað að Dawson hefði átt í ástarsambandi við fyrrverandi nemanda sinn sem var einnig barnfóstra þeirra Lynette. Hann hefði síðan myrt konu sína til að geta verið áfram í sambandi við barnfóstruna. 

Enginn vafi leikur á sekt Dawsons, sagði dómarinn þegar hann kvað upp dóm sinn. Dawson hefði verið hugfanginn af barnfóstrunni sem þá var á unglingsaldri. Dómarinn sagði að Dawson hefði logið með margvíslegum hætti, svo sem um samband sitt og stúlkunnar, að Lynette hefði haft samband eftir að hún hvarf og að hún hefði látið sig hverfa sjálfviljug.

Þegar dómurinn hafði verið kveðinn upp skoraði bróðir Lynette Dawson á Chris Dawson að upplýsa hvar hann hefði falið lík hennar. Verjandi hans sagði hins vegar að dómnum yrði áfrýjað.

epa10146869 Journalist Hedley Thomas (C) along with Greg Simms (C, rear) the brother of Lynette Dawson, and his wife Merilyn (C-R), address the media outside the Supreme Court of New South Wales (NSW) in Sydney, NSW, Australia, 30 August 2022. On 30 August, NSW supreme court Justice Ian Harrison found former Sydney school teacher Chris Dawson guilty of murdering his former wife Lynette in 1982, so he could pursue a relationship with the family babysitter. Dawson, an Australian man who became the subject of a popular crime podcast, had been accused of killing Lynette Dawson in 1982.  EPA-EFE/DAN HIMBRECHTS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Headley Thomas og Greg Simms, bróðir Lynette Dawson, ræddu við fjölmiðla að réttahaldi loknu.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV