Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Færeyingar og Bandaríkjamenn stofna viðskiptaskrifstofu

Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Viðskipti milli Færeyja og Bandaríkjanna hafa aukist verulega á síðustu árum og frekari breytingar eru í sjónmáli. Sendiherrar Bandaríkjanna og Japans í Danmörku heimsóttu Færeyinga í síðustu viku.

Helsti tilgangurinn með heimsókn sendiherranna var að treysta enn frekar viðskiptatengsl við Færeyinga samkvæmt upplýsingum Vinnuhússins sem Føroya Arbeiðsgevarafelag eða Vinnuveitendasamband Færeyja rekur. KVF greinir frá.

Þar var sendiherrunum boðið til viðburðar sem ætlað var að kynna færeyskt atvinnulíf og samfélag. Forvígismenn félagsins funduðu sérstaklega með  Alan Leventhal, nýskipuðum sendiherra Bandaríkjanna þar sem gagnkvæmar hugmyndir um frekari styrkingu viðskiptatengsla voru ræddar. 

Stærsta skrefið um þessar mundir er stofnun sérstakrar viðskiptaskrifstofu Bandaríkjanna og Færeyja sem hefur starfsemi á næstu dögum. Bárður á Steig Nielsen lögmaður kynnti í síðasta mánuði þá fyrirætlan að opna sendiskrifstofu fyrir Færeyjar í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.

Í fyrra seldu Færeyingar vörur og þjónustu vestur um haf fyrir milljarð danskra króna, sjö hundruð milljónum meira en fyrir áratug. Innflutningur á bandarískum vörum til Færeyja hefur að sama skapi vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum.