Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sjálfstæðismenn vilja koma böndum á máva í borginni

29.08.2022 - 22:38
Mynd: Stocksnap.io / Stocksnap.io
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu um að gripið verði til aðgerða gegn vargfugli í Reykjavík. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, segir að aðgerðirnar myndu vernda bæði mann- og dýralíf borgarinnar.

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem lögð var fram á borgarráðsfundi á fimmtudag leggur meðal annars til að gripið verði til hertra aðgerða gegn mávi við Tjörnina í Reykjavík, og að spornað verði við mávavarpi í eyjum í Kollafirði. Kjartan, sem fór fyrir tillögunni, segir að mávurinn hafi slæm áhrif á dýralífið í miðborginni.

En í hverju felast tillögurnar? „Það eru fyrst virkar aðgerðir til þess að fæla mávinn í burtu. Það hefur verið talað um að skjóta á hann, og það hefur verið gert víða um land. Það er ein leiðin til að fæla hann í burtu. Mávurinn er gáfað kvikindi. Hann fattar þegar það er verið að amast við honum og flýgur hærra og fer jafnvel. Svo þarf áberandi skilti til að hvetja fólk til að gefa honum ekki að borða. Hann sækir í æti hvort sem það sé brauð eða andarungar. Svo þarf að stemma stigu við mávavarpinu eins og var gert áratugum saman,“ segir Kjartan. 

Mynd með færslu
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Mynd: Barði Stefánsson - RÚV

Mávar eru orðnir afar áberandi í borginni og eru gjarnan ágengir, eins og fréttastofa fjallaði um fyrr í mánuðinum. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gripu til aðgerða árið 2007 til að flæma í burtu máva, en lítið sem ekkert hefur verið gert síðan 2010. Kjartan segir að kominn sé tími til að grípa til hertari aðgerða. „Sumir nota þá samlíkingu að mávurinn sé eins og fljúgandi rotta. Ég vill ekki taka svo sterkt til orða, en ég skil þá líkingu vel þegar maður sér hann innan um endurnar og andarungana hér við tjörnina.“

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV