Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem lögð var fram á borgarráðsfundi á fimmtudag leggur meðal annars til að gripið verði til hertra aðgerða gegn mávi við Tjörnina í Reykjavík, og að spornað verði við mávavarpi í eyjum í Kollafirði. Kjartan, sem fór fyrir tillögunni, segir að mávurinn hafi slæm áhrif á dýralífið í miðborginni.
En í hverju felast tillögurnar? „Það eru fyrst virkar aðgerðir til þess að fæla mávinn í burtu. Það hefur verið talað um að skjóta á hann, og það hefur verið gert víða um land. Það er ein leiðin til að fæla hann í burtu. Mávurinn er gáfað kvikindi. Hann fattar þegar það er verið að amast við honum og flýgur hærra og fer jafnvel. Svo þarf áberandi skilti til að hvetja fólk til að gefa honum ekki að borða. Hann sækir í æti hvort sem það sé brauð eða andarungar. Svo þarf að stemma stigu við mávavarpinu eins og var gert áratugum saman,“ segir Kjartan.