Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Engin viðmið um arðgreiðslur skóla sem fá opinbert fé

29.08.2022 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Alvarlegar athugasemdir eru gerðar í nýrri skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla. Nokkrir sjálfstætt starfandi leikskólar greiða út umtalsverðan arð af starfsemi sinni og jafnvel þótt eigið fé þeirra sé neikvætt. Engar kvaðir eru um nýtingu opinberra framlaga og rekstrarafgang sjálfstætt starfandi leikskóla.

Alls gerir innri endurskoðun fimm athugasemdir við fyrirkomulag sjálfstætt starfandi grunn- og leikskóla í Reykjavík. Sú alvarlegasta vegna þess að engar kvaðir eru á nýtingu opinberra fjárframlaga til skólanna. Nokkrir sjálfstætt starfandi leikskólar greiða út umtalsverðan arð af starfsemi sinni, eins og segir í skýrslunni.

Eigendur leikskólans Ársólar greiddu sér samtals 20,9 milljón króna arð árin 2018 og 2019 þrátt fyrir að eigið fé hafi verið neikvætt og skólinn stefndi í gjaldþrot. Eigendur leikskólans Vinaminni greiddu sér út 65 milljón króna arð árin 2019 til 2020. Lagt er til í skýrslunni að viðmið verði sett um arðgreiðslur og rekstrarafgang sjálfstætt starfandi skóla og skoðað hvort starfsemin samræmist meðferð á opinberu fé.

Í skýrslunni segir einnig að sjö sjálfstætt starfandi leikskólar hafi ekki rukkað samkvæmt heimildum Reykjavíkurborgar um gjaldtöku. Einn þeirra ofrukkaði foreldra barns um 16 þúsund krónur á mánuði þar til málið var tilkynnt og skólinn varð að borga rúma milljón til baka. Þá er einnig lagt til að síendurteknu eftirlti skóla- og frístundasviðs með sjálfstætt starfandi leikskólum fylgi einhverjar aðgerðir. Í sex ár í röð hefur sami leikskólinn fengið athugasemdir vegna þess að skólanámskrá vantar, en engum viðurlögum vegna þessa hefur verið beitt.

Starfshópur hefur verið skipaður til þess að bregðast við athugasemdum innri endurskoðunar. Innri endurskoðandi borgarinnar gaf ekki kost á viðtali vegna málsins. 

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV