Fréttir: Árekstrum innan ríkisstjórnarinnar muni fjölga

28.08.2022 - 12:22
Stjórnmálafræðingur telur að varaformaður Vinstri grænna hafi reynt að draga fram ágreining í ríkisstjórnarsstarfinu þegar hann lýsti því í ræðu á flokksráðsþingi í gær að hann vildi sjá aðra ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Árekstrum innan ríkisstjórnar muni líklega fjölga þegar líði á.

Yfir þúsund hafa farist í flóðum vegna monsúnrigninga í Pakistan, þar af 119 síðasta sólarhringinn. Einn af hverjum sjö íbúum landsins hefur orðið fyrir skaða af völdum flóðanna.

Sveitarstjóri segir íbúa í hjólhýsabyggð við Laugarvatn hafa byggt þar í óleyfi. Ekki er búið að ákveða framtíðarhlutverk svæðisins.

Alvarlegt slys varð á bikarmóti í fjallabruni í gær. Sá slasaði, sautján ára piltur, er þaulreyndur hjólreiðamaður. Mótinu var aflýst vegna slyssins. 

Vegagerðin skoðar nú gerð fimm jarðganga á höfuðborgarsvæðinu. Framundan er umtalsverð uppbygging á samgönguinnviðum í samræmi við samgöngusáttmála. 

Hluta nemenda í Laugarnesskóla í Reykjavík verður kennt í húsnæði KSÍ í Laugardal í vetur. Þetta var ákveðið eftir að gámar, sem áttu að hýsa kennslustofur, komu ekki til landsins. Skólastjóri segir brýnt að byggja við skólann.

Á morgun skýtur bandaríska geimferðastofnunin ómannaða geimfarinu Artemis á loft í átt að tunglinu. sem það mun hringsóla og gera mælingar. Gert er ráð fyrir að tunglferðir hefjist að nýju eftir um hálfrar aldar hlé. 

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta vann frækinn sigur á Úkraínu í Hafnarfirði í gærkvöld. Draumurinn um að komast á HM í fyrsta sinn lifir því enn. 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV