Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Forsetar Frakklands og Alsír heita endurnýjun vináttu

epa10142329 A handout photo made available by the Algerian presidency press service shows  Algeria's President Abdelmadjid Tebboune (R) and French President Emmanuel Macron (L) attend a signing ceremony of the Algiers declaration for a renewed partnership between Algeria and France in the pavilion of honour at Algiers airport, Algeria, 27 August 2022. Macron was on a three-day visit to Algeria.  EPA-EFE/ALGERIAN PRESIDENCY HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - ALGERIAN PRESIDENCY
Forsetar Frakklands og Alsírs undirrituðu í gær sameiginlega yfirlýsingu sem ætlað er að efla samstarf og samvinnu ríkjanna eftir langt tímabil erfiðra samskipta þeirra á milli.

Emmanuel Macron, Frakklandsforseti var ásamt fríðu föruneyti í þriggja daga opinberri heimsókn til Alsír sem eitt sinn var frönsk nýlenda. Þeir Abdelmadjid Tebboune, forseti Alsír lýstu því yfir að nú væri hafið óumbreytanlegt tímabil kraftmikillar framþróunar í samskiptum ríkjanna tveggja. 

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að forsetarnir hefðu ákveðið að leggja undirstöður að endurnýjaðri, uppbyggilegri og áþreifanlegri vináttu og friðsamlegri sambúð ríkjanna. Þeir kváðust í því ljósi ætla að hvetja ungt fólk til dáða og ekki síst að leggja áherslu á sameiginleg verkefni í framtíðinni. 

Kaldir vindar blésu á seinasta ári

Mjög tók að anda köldu milli stjórnvalda Alsír og Frakklands á síðasta ári þegar Emmanuel Macron staðhæfði að saga Alsírs hefði verið endurrituð í pólítískum tilgangi, gegnsýrðum hatri á Frakklandi. 

Abdelmadjid Tebboune kallaði sendiherra Alsír heim frá París í kjölfarið og bannaði ferðir franskra herflugvéla í lofthelgi landsins.

Í aðdraganda heimsóknar Macrons til birtist yfirlýsing frá forsetaskrifstofunni þar sem ummælin voru hörmuð og áréttað mikilvægi þess að horfa til framtíðar. 

Stjórnmálaskýrendur segja áríðandi að samskipti Alsír og Frakklands séu í góðum farvegi í ljósi átaka í Afríku norðanverðri og eins vegna stríðsins í Úkraníu.

Ekki síst segja skýrendur að hafa beri í huga loforð Alsírstjórnar um að mæta þörfum Evrópu um jarðgas eftir að mjög hefur dregið úr gaskaupum af Rússum.